Fyrrum tvöfaldi heimsmeistarinn í Formúlu 1, Mika Hakkinen segist geta séð fyrir sér að samlandi hans, Valtteri Bottas verði heimsmeistari með Mercedes liðinu.
Allt stefnir í þá átt að finnski ökumaðurinn sem er enn formlega á mála hjá Williams fari til Mercedes fyrir komandi tímabil. Bottas mun þar taka sæti Nico Rosberg, ríkjandi heimsmeistara. Rosberg hætti í Formúlu 1 fimm dögum eftir að hann varð meistari.
Hakkinen þekkir vel til Bottas enda hluti af umboðsteymi hans. Hakkinen hefur trú á að Bottas sé nógu góður til að berjast um titilinn og segir að áhugi Mercedes muni auka sjálfstraust Bottas.
„Staðan fyrir ökumann er aldrei betri en þegar lið vill fá þig. Sérstaklega þegar liðið er drottnandi afl í Formúlu 1 eins og Mercedes hefur verið, þetta er draumastaða,“ sagði Hakkinen í samtali við MTV3 í Finnlandi.
„Ég get séð Bottas verða heismeistara. Þegar maður kemur til liðsins sem er á toppnum og getur unnið keppnir og titla, þá er bara þitt að þróast og vinna keppnirnar og á endanum titlana,“ hélt Hakkinen áfram.
Enn á þó eftir að tilkynna hver mun aka við hlið Lewis Hamilton hjá Mercedes. Vitað er að Felipe Massa hefur ákveðið að fresta því að setjast í helgan stein til að taka sæti Bottas hjá Williams. Vænta má tilkynningar seinna í janúar.
