Heimsmeistaramótinu mun ljúka um helgina með einvígi í eyðimörkinni. Það eru Rosberg og liðsfélagi hans hjá Mercedes, Lewis Hamilton sem geta orðið heimsmeistarar ökumanna. Rosberg er með 12 stiga forskot.
Ef Rosberg endar þriðji eða framar um helgina verður hann heimsmeistari ökumanna. Óháð því hvar Hamilton endar. Nico Rosberg og Keke, föður hans verða þá aðeins aðrir feðgarnir í sögu Formúlu 1 til að verða báðir heimsmeistarar. Það hafa Damon Hill og Graham Hill einir gert.
Rosberg varði síðustu viku í faðmi fjölskyldu og vina en hefur ákveðið að hann ætli að gefa allt í keppnina í Abú Dabí. Hann ætli að reyna að vinna frekar en að spila öruggt og aka upp á að verða þriðji eða annar á eftir Hamilton.
„Ég mun gefa allt í lokakeppnina og reyna að vinna hana,“ sagði Rosberg.
„Ég var að grínast með það í Brasilíu að ég myndi áfram tækla þetta eina keppni í einu en því meira sem ég hugsa um það þá hljómar það skynsamlegra. Ég verð því að tækla þessa keppni eins og hverja aðra,“ bætti Rosberg við.
Rosberg sem vann í Abú Dabí í fyrra hefur alltaf ræst framar en Hamilton á Yas Marina brautinni, síðan þeir urðu liðsfélagar, það er frá 2013.
Lokakeppni tímabilsins fer fram um komandi helgi. Bein útsending frá tímatökunni hefst klukkan 12:50 á laugardag á Stöð 2 Sport 3. Bein útsending frá keppninni hefst svo klukkan 12:30 á sunnudag á Stöð 2 Sport.
Hér að neðan má sjá yfirlit yfir tímabil Rosberg og Hamilton og þróun heimsmeistarakeppni ökumanna.