Íslenski boltinn

"Markið" í Ólafsvík: Fannst ég ekki gera neitt rangt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
vísir/hanna/stefán
Umdeilt atvik átti sér stað í leik Víkings Ó. og KR í 21. umferð Pepsi-deildar karla í kvöld.

Þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum sló Stefán Logi Magnússon, markvörður KR, boltann í eigið mark eftir hornspyrnu Pape Mamadou Faye.

Markið var hins vegar dæmt af en Þorsteinn Már Ragnarsson, fyrirliði Víkings, var álitinn brotlegur. Ólsarar voru afar ósáttir við dóminn enda erfitt að sjá hvað Þorsteinn gerði sem verðskuldaði að dæmd yrði aukaspyrna á hann.

Skil ekki af hverju hann breytti um ákvörðun

„Mér fannst ég ekki gera neitt rangt. Við vorum í klafsi, ég, Stefán og Indriði [Sigurðsson],“ sagði Þorsteinn í samtali við Vísi eftir leik.

„Indriði ýtir í mig, svo bakka ég og Stefán er allt í einu kominn ofan á mig og það er dæmd aukaspyrna á mig. Ég veit ekki hvað Erlendur [Eiríksson, dómari leiksins] sá þarna. Hvert á ég að fara? Hvað á ég að gera? Ég skil ekki af hverju hann dæmdi aukaspyrnu á mig.“

Svo virtist sem Erlendur hafi fyrst dæmt mark en hætt svo við og breytt dómnum í aukaspyrnu.

„Ég hélt hann hefði dæmt mark fyrst. Ég skil ekki af hverju hann breytti um ákvörðun. Ég átta mig ekki á því,“ sagði Þorsteinn.

Sterkir strákar

Stefán Logi hafði aðra sýn á atvikið umdeilda.

„Þeir áttu tvö horn áður. Steini vinnur nú við að temja hesta, þannig að hann er nautsterkur og frábær strákur. Ég er líka svolítið sterkur sjálfur en reglurnar eru þannig að það má ekki ýta,“ sagði Stefán Logi.

„Hann byrjar á því að labba með mig inn í markið. Það var s.s. ekkert brot þegar ég hoppa upp en brotið átti sér stað á undan því og dómarinn dæmdi kannski á það,“ bætti markvörðurinn við.

Léttast að kenna dómurunum um

Ólsarar hafa verið ósáttir við dómgæsluna í nokkrum leikjum að undanförnu og telja á sig hallað. En hvernig lítur fyrirliðinn á málið?

„Það er alltaf léttast að kenna dómurunum um en það eru stór atvik í síðustu leikjum sem hafa ekki fallið með okkur. Það voru augljóslega rangar ákvarðanir. En við þurfum að líta í eigin barm og mæta sterkir til leiks gegn Stjörnunni,“ sagði Þorsteinn að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×