Íslenski boltinn

Elfar Freyr heppinn að fá ekki rautt: „Þetta er gjörsamlega óþolandi“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Breiðablik er í bílstjórasætinu ásamt Fjölni í baráttunni um Evrópusæti í Pepsi-deild karla eftir flottan 3-0 sigur á Valsmönnum á Hlíðarenda í gærkvöldi.

Blikar komust 1-0 yfir með marki Árna Vilhjálmssonar í fyrri hálfleik en vendipunktur leiksins var alveg undir lok fyrri hálfleiksins þegar Rasmus Christiansen fékk rautt spjald fyrir að brjóta á Árna þegar hann var að sleppa einn í gegn.

Flestir eru sammála dómi Gunnars Jarls Jónssonar, dómara leiksins, en strákarnir í Pepsi-mörkunum voru allt annað en ánægðir með Blikann Elfar Frey Helgason sem blandaði sér í málið og stóð yfir Rasmus er hann hundskammaði Danann fyrir brotið.

Þegar Orri Sigurður Ómarsson, miðvörður Vals, kom svo til að vernda sinn mann og ýtti í bringuna á Elfari henti hann sér niður og hélt um höfuð sér. Elfar Freyr fékk gult spjald fyrir sinn þátt í uppákomunni.

„Hvað er Elfar Freyr Helgason að gera þarna? Í alvöru talað, átti hann að fá rautt líka?“ spurði Hörður Magnússon sérfræðinga sína í gærkvöldi.

„Hann hefði getað fengið rautt fyrir að lesa þarna yfir Rasmus og fyrir þessa frábæru dýfu,“ sagði Hjörvar Hafliðason en Hirti Hjartarsyni var alls ekki skemmt.

„Hvað er Elfar að gera þarna? Almáttugur. Svo ætlar hann að vera svakalega harður og lesa yfir mönnum en þegar það er rétt komið við hann grípur hann um höfuð sér og virkar stórslasaður. Þetta er gjörsamlega óþolandi. Þetta er topp strákur og allt það en þetta er fáránlegt,“ sagði Hjörtur Hjartarson.

Alla umræðuna úr Pepsi-mörkum gærkvöldsins má sjá í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×