Fyrrum heimsmeistarinn Jacques Villeneuve telur dómara í Formúlu 1 veita Max Verstappen meira svigrúm en öðrum. Hann telur að FIA líti út eins og þeir séu að vernda ungstirnið.
Red Bull ökumaðurinn hefur átt sinn þátt í mörgum vafasömum atvikum á kappakstursbrautinni á tímabilinu. Margir hafa fagnað honum sem ferskum blæ í Formúlu 1. Þar á meðal Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes.
Aðrir hafa gagnrýnt Verstappen fyrir hættulega hegðun og fyrir að huga ekki að öryggi annarra ökumanna. Þar á meðal er Kimi Raikkonen sem fékk að finna fyrir Verstappen síðustu helgi í belgíska kappakstrinum.
Sjá einnig: Bílskúrinn, uppgjör belgíska kappakstursins.
Villeneuve er sammála Raikkonen að vissu leyti. Hann segir að dómarar keppninnar í Belgíu hefðu að minnsta kosti átt að skoða nokkur atvik hjá Verstappen í Belgíu.
„Vandinn er falinn í FIA [Alþjóða akstursíþróttasambandinu] vegna þess að sambandið lætur líta út fyrir að hann sé verndaður,“ sagði Villeneuve.
„Það var atvik í Þýskalandi þar sem hann svigaði til á beina kaflanum og Nico Rosberg missti af bremuspunktinum sínum. Nico var svo refsað,“ bætti Villeneuve við.
„Það er eitthvað rangt í gangi. Ég veit ekki hvað það er. Þetta gerir mig reiðan en svona er þetta bara. Fyrir tuttugu árum síðan hefði einhver sett hann upp í tré,“ sagði Villeneuve að lokum.

