Jamaíkamaðurinn Usain Bolt tryggði sér í nótt sigur í 100 metra hlaupi karla á þriðju Ólympíuleikunum í röð. Áhorfendur á Ólympíuleikvanginum í Ríó héldu mikið með Bolt og púuðu á Justin Gatlin. Það var því mikill fögnuður þegar Bolt kom fyrstur í mark.
Usain Bolt skrifaði frjálsíþróttasögu Ólympíuleikanna með þessum sigri en enginn annar hefur unnið 100 metra hlaupið þrisvar sinnum á leikunum. Bolt hefur nú unnið sjö gull á Ólympíuleikunum og getur bætt því áttunda og níunda við seinna í vikunni.
Usain Bolt var úrslitahlaupið á klassískan hátt og sigur hans var ekki í mikilli hættu ekki frekar en þegar hann vann í Peking 2008 og í London 2012. Tíminn var ekki eins góður og í hin tvö skiptin en gullið er hans samt sem áður.
Bandaríkjamaðurinn Justin Gatlin varð annar í hlaupinu og fær silfrið en Andre De Grasse frá Kanada fékk bronsið. Usain Bolt hljóp metrana hundrað á 9.81 sekúndum, Gatlin kom í mark á 9.89 sekúndum og tími De Grasse var 9.91 sekúnda.
Þetta er besti tími Usain Bolt á árinu en hann hefur verið að glíma við meiðsli og fékk meðal annars að sleppa við að hlaupa á úrtökumótinu á Jamaíka til þess að ná sér góðum fyrir Ólympíuleikana í Ríó. Sumir litu svo á að hann hafi fengið frían passa til Ríó en það er önnur saga.
Usain Bolt átti leikvanginn gjörsamlega eftir að sigurinn var í höfn og að vanda fagnaði hann vel, lengi og á skemmtilegan hátt eins og hann er þekktur fyrir. Þessi mikli skemmtikraftur og stórkostlegi íþróttamaður er nefnilega engum öðrum líkur.
Usain Bolt Ólympíumeistari í 100 metra hlaupi í þriðja sinn
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið


Guardiola hneykslaður á söngvum um móður Fodens
Enski boltinn

„Ég horfði á leikinn og sparkaði tebollanum í gólfið“
Enski boltinn



Sjáðu glæsimark Rúnars Más og skrautlegt sjálfsmark á Hlíðarenda
Íslenski boltinn



