Nico Rosberg var fljótastur í dag. Hann náði að stela ráspólnum á síaðsta hring. Tímatakan var dramatísk enda brautin rennblaut í upphafi en þornaði svo hratt. Hver sagði hvað eftir tíamtökuna?
„Þetta var erfið tímataka enda aðstæður mjög breytilegar. Ég náði bara afar góðum lokahring. Þetta var spennandi í dag,“ sagði Rosberg.
„Ég var óheppinn með staðsetningu gagnvart Fernando [Alonso]. Ég er ekkert of vonsvikinn það er löng keppni framundan á morgun,“ sagði Lewis Hamilton.
„Ég var brjálaður á síðasta hringnum, ég var að setja tíma sem ég er viss um að hefði skilað mér nær ráspól. Það var enn smá vatn þegar ég var að koma í síðustu beygjuna með DRS opið. Þetta var dálítið svakalegt augnablik,“ sagði Daniel Ricciardo sem ræsir þriðji á morgun á Red Bull bílnum.
„Daniel [Ricciardo] var þremur tíundu undir tímanum hans Hamilton. Það hefði verið flott að sjá hann stela ráspól,“ sagði Christian Horner liðsstjóri Red Bull.
„Já hann [Rosberg] sló af í gegnum gulu flöggin. Við höfum ekki enn verið beðnir um að koma og sýna dómurunum gögnin okkar,“ sagði Toto Wolff, liðsstjóri Mercedes.
Rosberg virtist hægja á sér í gegnum svæðið sem Fernando Alonso snéris á. Hamilton var afar nálægt Alonso en Alonso var farinn af svæðinu þegar Rosberg kom.
„Ég er ánægður með bíllinn í þessum aðstæðum. Það er góð tilfinning að koma báðum bílum í topp tíu í tímatökunni en um leið og við náum því markmiði viljum við meira. Við erum fyrir framan bílana sem við erum raunverulega að keppa við,“ sagði Jenson Button sem ræsir áttundi á McLaren bílnum á morgun.
„Við hefðum átt að geta náð þriðja sæti. Ég tapaði tíma fyrir aftan Jenson á seinni helmingi síðasta hrings. Ég held að Jenson hafi gleymt sér aðeins eftir gulu flöggin,“ sagði Sebastian Vettel sem ræsir fimmti á morgun á Ferrari bílnum.
