Viðskipti innlent

Áhrif Brexit neikvæð en umfangið enn óljóst

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ingólfur Bender
Ingólfur Bender vísir/gva
„Þegar stórt er spurt. Það er gífurleg óvissa um áhrifin og enn á allt eftir að koma í ljós,“ segir Ingólfur Bender, forstöðumaður greiningar hjá Íslandsbanka, í samtali við Vísi aðspurður um hvaða áhrif útganga Breta úr Evrópusambandinu mun hafa.

Bretar samþykktu í þjóðaratkvæðagreiðslu í gær að segja sig úr Evrópusambandinu. Tæplega 52 prósent kjósenda var hlynntur því að ganga úr sambandinu.

„Viðbrögðin á fjármálamarkaði eru þau að pundið hefur lækkað mjög sem og hlutabréf. Lækkun pundins er áhyggjuefni fyrir Ísland og mögulegan hagvöxt í Bretlandi,“ segir Ingólfur.

Bretland er stór útflutningsmarkaður fyrir Ísland og að auki eru Bretar næststærsti hópurinn sem heimsækir landið. Sjávarútvegsfyrirtæki landsins selja umtalsvert magn af vörum til Bretlands og ljóst að útgangan gæti verið högg fyrir þau.

„Mínar áhyggjur snúa að framtíð ESB og EES. Þær áhyggjur snúa ekki aðeins að hagsmunum þeim sem eru undir fyrir Ísland heldur fyrir þetta svæði almennt og stóru myndina í kringum það. Það er erfitt að spá um umfang áhrifanna.“

Áhrifa útgöngunnar gætir hér heima en hlutabréf í Kauphöllinni hafa tekið dýfu í dag. Til dæmis hafa bréf í Marel og Icelandair lækkað um fjögur prósent. Aðrar tölur eru allar rauðar þó lækkunin sé mismikil.

„Það er víst að þetta hefur neikvæð áhrif í för með sér, hve mikil verður að koma í ljós. Það veltur allt á því hvernig framhaldið spilast í öðrum ríkjum og hvernig Bretland sjálft tekur á þessu. Hvaða samningar fylgja útgöngunni og hvar landið endar að útgöngu lokinni,“ segir Ingólfur að lokum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×