„Dekkin voru köld og það var mikil undirstýring. Við Nico [Rosberg] vorum heppnir að skemma ekki vængi eða eitthvað,“ sagði kampakátur og kampavínsblautur Hamilton á verðlaunapallinum eftir að hafa unnið fimmta kanadíska kappaksturinn á ferlinum.
„Mercedes voru bara aðeins of snöggir í dag. Aðdáendur hér gera helgina skemmtilegri en margar aðrar. Við glímdum aðeins við meðvind sem ruglaði jafnvægið örlítið,“ sagði Vettel á verðlaunapallinum. Hann hefði hugsanlega geta unnið keppnina með betri keppnisáætlun Ferrari.
„Við erum afar ánægð með að ná verðlaunasæti, Williams er að ná framförum og það er gaman að ná þessum árangri fyrir framan þessa frábæru áhorfendur,“ sagði Valtteri Bottas sem náði í dag í fyrsta verðlaunasæti Williams liðsins á árinu.
„Við vanmátum hversu mikið dekkin myndu endast. Það gera allir mistök. Það er óþarfi að gera söguna dramatískari en hún er. Við gerðum mistök,“ sagði Maurizio Arrivabene liðsstjóri Ferrari.

„Dekkin voru að slitna of hratt hjá okkur. Við hefðum viljað enda á verðlaunapallinum en við gerðum okkar besta,“ sagði Max Verstappen sem endaði fjórði.
„Þetta var ekki góður sunnudagur. Ræsingin var ágæt en þegar Rosberg var að koma inná aftur þá lenti ég í smávægilegum vandræðum. Við gátum ekki notað dekkin eins vel og við vildum. Við vorum mikið í umferðinni,“ sagði Daniel Ricciardo sem tapaði fyrir liðsfélaga sínum í dag.