Viðskipti innlent

Taka hvalkjöt úr verslunum sínum á Húsavík

Bjarki Ármannsson skrifar
Samkaup og Norðursigling vinna að því að markaðssetja Húsavík sem hvalamiðstöð.
Samkaup og Norðursigling vinna að því að markaðssetja Húsavík sem hvalamiðstöð. Vísir/Pjetur
Hvalkjöt verður framvegis ekki selt í verslunum Samkaupa á Húsavík. Þetta er meðal þess sem felst í nýju samkomulagi milli hvalaskoðunarfyrirtækisins Norðursiglingar og Samkaupa, sem reka verslanirnar Nettó og Krambúðina á Húsavík.

Samkomulag fyrirtækjanna miðar að því að markaðssetja Húsavík sem hvalamiðstöð á Íslandi. Það felur einnig í sér að kynningarefni Norðursiglingar verður gert aðgengilegt í verslunum Samkaupa á Húsavík.

Hvalaskoðun er mjög vinsæl meðal ferðamanna á Húsavík en hvalveiðar Íslendinga eru, sem kunnugt er, verulega umdeildar víða um heim.

Haft er eftir Gústafi Gústafssyni, markaðs- og kynningarstjóra Norðursiglingar, í tilkynningu að hvalveiðar og sala á hvalaafurðum séu á algerri andstöðu við stefnu fyrirtækisins.

„Það er því táknrænt að einmitt hér á Húsavík sé hvalkjöt tekið úr sölu í verslunum,“ segir Gústaf í tilkynningunni.

Af tilkynningunni verður þó ekki ráðið að til standi að taka hvalkjöt úr verslunum Samkaupa annarsstaðar á landinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×