Dream Wife er stúlknatríó sem stofnað var í listaháskóla í Brighton á síðasta ári. Tvær stelpnanna eru breskar en söngkonan heitir Rakel Mjöll og hefur áður starfað hér á landi með hljómsveitunum Halleluwah og Útidúr. Dream Wife gefur út á morgun fyrstu þröngskífu sína, EP01, út í Bretlandi og víðar á vegum fyrirtækisins Cannibal Hymns. Þar af leiðandi á að á að blása til heljarinnar útgáfuveislu annað kvöld þar sem Reykjavíkurdætur hita upp.
„Við höfum á stuttum tíma verið að vinna með tveimur öðrum útgáfufyrirtækjum... þetta hefur verið svolítið eins og Runaway Bride. Höfum alltaf verið að trúlofa okkur en aldrei svo gifst,“ segir Rakel um forsögu þess að hljómsveitin gerði plötusamning við útgáfufyrirtækið.
„Þetta er búið að gerast mjög hratt. Fyrstu London tónleikarnir voru fyrir ári síðan og eftir það var bara búið að bóka okkur á hrúgu af fundum með alls konar umboðsskrifstofum og útgáfum. Við fórum á svo marga fundi að ég lærði að þetta er allt annar leikur í London en á Íslandi. Þetta er svona House of Cards. Það vilja allir hitta þig og bjóða þér eitthvað – en aldrei allan pakkann. Menn vildu bara geta sagt við yfirmenn sína að þeir hefðu hitt okkur. Þetta var brjáluð athygli en svo kemur alltaf að því að maður vill bara vinna með fólki sem maður treystir.“

Annaðkvöld heldur Dream Wife útgáfutónleika á skemmtistaðnum Birthday‘s í Dalston í austurhluta London og er upphitunarsveitin ekki af verri endanum, sjálfar Reykjavíkurdætur. Íslenskar stúlkur munu því ráða ríkjum í stórborginni annað kvöld.
Stemningin fyrir tónleikunum er það mikil að uppselt varð fyrir mánuði síðan.
„Umboðsmaður okkar sá Reykjavíkurdætur á Airwaves og varð svona dolfallinn. Við buðum þeim að spila með okkur og svo bókaði hún tvenna aðra tónleika fyrir þær hér í borginni. Þær ætla svo að koma á svið með okkur í lokalaginu og svona. Þetta verður æðislegt“.
Á EP01 er að finna fjögur lög. Þar á meðal dúettinn Everything sem Rakel syngur ásamt Karin úr hljómsveitinni Young Karin. Platan kemur aðeins út segulbandi og vínýl.
„Það gefur enginn út á geisladisk lengur hér í London. Ekki einu sinni Kanye West,“ segir Rakel.