Lárus Blöndal formaður stjórnar Bankasýslu ríkisins og Jón Gunnar Jónsson forstjóri Bankasýslunnar voru gestir á fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun til að fjalla um sölu á bréfum Lansbankans í Borgun hf. Á föstudag sendi stofnunin bankaráði Landsbankans bréf þar sem hún rekur afstöðu sína til svarbréfs bankans frá 11. febrúar.
Það er niðurstaða Bankasýslunnar að Landsbankinn hafi ekki gefið góðar skýringar á því hvers vegna önnur leið var farin við sölu á bréfum í Borgun hf. en þegar bréf bankans í Valitor voru seld.
„Þarna er um að ræða sölur á sambærilegum fyrirtækjum algjörlega samhliða í tíma. Okkur finnst við ekki hafa fengið nægilega góðar skýringar á því hvers vegna ekki var settur sambærilegur fyrirvari inn í samninginn um Borgun líkt og gert var í tilviki Valitors,“ segir Lárus Blöndal.
Það er niðurstaða Bankasýslunnar að Landsbankinn hafi ofmetið söluþrýsting frá Samkeppniseftirlitinu og dregið rangar ályktanir af samskiptum við eftirlitið í aðdraganda sölu á 31,2 prósent hlut sínum í Borgun hf. Í bréfi Bankasýslunnar segir að fagleg ásýnd Landsbankans og stjórnenda hans hafi beðið hnekki og að bankaráð Landsbankans verði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að endurheimta það traust og þann trúverðugleika sem þessi sölumeðferð á hlutum í Borgun hafi kostað bankann.
Hvaða ráðstafanir væru til þess fallnar að ná slíku markmiði? „Núna leggjum við þetta í hendurnar á þeim sem stýra bankanum og væntum þess að fá svör frá þeim fyrir þessi tímamörk, fyrir næstu mánaðamót. Við bíðum með að tjá okkar skoðanir þangað til við höfum fengið að sjá hvað bankaráðið leggur til,“ segir Lárus.

- Landsbankinn þurfti að rökstyðja frávik frá meginreglunni um opið söluferli.
- Rökstuðningur bankans fyrir frávikinu er ófullnægjandi.
- Stjórnendur Landsbankans drógu rangar ályktanir af samskiptum sínum við Samkeppniseftirlitið.
- Verklag við samningsgerð við sölu bréfanna í Borgun hf. var ábótavant.
- Engin haldbær rök hafa komið fram fyrir að setja eingöngu fyrirvara um valrétt við sölu á Valitor en ekki Borgun.
- Svör bankans við gagnrýni hafa ekki verið sannfærandi.
- Bankinn þarf að leita réttar síns hafi hann fengið rangar upplýsingar.
- Fagleg ásýnd og traust til bankans og stjórnenda hans hefur beðið hnekki.
- Bankaráð Landsbankans þarf að grípa til viðeigandi ráðstafana til að endurheimta traust.
