Íslenski boltinn

Gary skoraði á móti KR og Víkingar með fullt hús

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Gary Martin skoraði á móti sínum gömlu félögum í KR í kvöld þegar Víkingur lagði vesturbæjarliðið, 3-1, í riðli þrjú í Lengjubikar karla í fótbolta.

Þetta var fyrsti leikur Gary á móti KR síðan hann gekk í raðir Víkings fyrr á þessu ári en hann skoraði 38 mörk í 80 leikjum í efstu deild fyrir KR-inga.

Vladimir Tufegdzic kom Víkingum yfir á 20. mínútu eftir fallega sendingu frá Viktori Bjarka Arnarssyni. KR jafnaði metin í seinni hálfleik þegar Arnþór Ingi Kristinssyni þrumaði boltanum í eigið net, 1-1, eftir darraðadans í teignum.

KR-ingar sóttu mikið í leiknum og fengu nóg af færum til að vinna leikinn en þeim brást bogalistin fyrir framan markið. Þá varði Róbert Örn Óskarsson nokkrum sinnum mjög vel.

Gary Martin kom Víkingi í 2-1 á 59. mínútu þegar hann klippti boltann í netið úr teignum, en nokkrum sekúndum áður varði Stefán Logi Magnússon frá Viktori Jónssyni úr dauðafæri sem Gary lagði upp.

KR-ingar héldu áfram að sækja en það voru Víkingar sem bættu við þriðja markinu. Það gerði Stefán Þór Pálsson á 75. mínútu. Hann renndi knettinum netið af stuttu færi, 3-1. Það urðu lokatölur.

Í uppbótartíma þurfti að bera hinn unga og gríðarlega efnilega Guðmund Andra Tryggvason, leikmann KR, af velli, en hann lenti í samstuði og var sárþjáður.

Víkingar eru búnir að vinna alla fjóra leiki sína í riðli þrjú og eru á toppnum með tólf stig en KR er með fjögur stig eftir þrjá leiki.

Mörkin má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×