Erlent

Dómsmálaráðherra Frakklands segir af sér

Atli ísleifsson skrifar
Christine Taubira.
Christine Taubira. Vísir/AFP
Christine Taubira, dómsmálaráðherra Frakklands, hefur sagt af sér embætti til að mótmæla tillögum stjórnarinnar um breytingar á stjórnarskrá sem fela í sér að hægt verði að ógilda franskan ríkisborgararétt dæmdra hryðjuverkamanna.

François Hollande Frakklandsforseti vinnur nú að því að gera breytingar á löggjöf landsins í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París í nóvember þar sem 130 manns féllu.

Taubira er vel þekkt stjórnmálakona frá Cayenne í Frönsku-Gvæjana og átti mikinn hlut í að koma á nýrri hjónabandslöggjöf í Frakklandi árið 2013 sem heimilar samkynhneigðum að ganga í hjónaband.

Breytingartillagan myndi fela í sér að hægt yrði að ógilda franskan ríkisborgararétt þeirra sem séu með tvöfaldan ríkisborgararétt og fengið franskan á síðari árum.

Hollande og Manuel Valls forsætisráðherra hafa lýst breytingunni sem táknrænni, en tillagan hefur sætt mikilli gagnrýni, meðal annars frá Taubira.

Segir hún að breyting sem þessi myndi hafa alvarlegar aukaverkanir í för með sér þar sem Frökkum yrði skipt í tvo hópa og að þeir sem væru „hreinir“ Frakkar yrðu óbeint meira virði en þeir með blandaðan bakgrunn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×