Fótbolti

Viðar Örn: Hjálpar mér að komast í byrjunarliðið í landsliðinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Viðar Örn vonast eftir byrjunarliðssæti í landsliðinu.
Viðar Örn vonast eftir byrjunarliðssæti í landsliðinu. vísir/afp
Landsliðsframherjinn Viðar Örn Kjartansson skrifaði í dag undir þriggja ára samning við sænska stórliðið Malmö.

Viðar Örn spilaði á síðustu leiktíð með kínverska liðinu Jiangsu Sainty þar sem hann skoraði níu mörk í 22 deildarleikjum og varð bikarmeistari ásamt Sölva Geir Ottesen.

„Mér líkaði ekki lífið utan fótboltans í Kína og ég vildi komast aftur til Evrópu. Þetta skref hjálpar mér líka held ég að komast í byrjunarliðið hjá landsliðinu,“ sagði Viðar Örn á fréttamannafundi Malmö í dag, aðspurður um ástæðu vistaskiptanna.

Hann sagðist hafa notið góðs af því að spila í Kína og telur sig vera betri leikmann en þegar hann varð markakóngur norsku úrvalsdeildarinnar með Vålerenga 2014.

„Ég er betri að spila fyrir liðið núna. Í Noregi var ég eiginlega bara að skora mörk en leikstíllinn var ekki nógu góður. Núna er ég betri með boltann,“ sagði Viðar sem var eftirsóttur þegar ljóst var að hann myndi yfirgefa Kína.

„Það voru mörg félög áhugasöm en Malmö er frábær klúbbur og ég vildi mest koma hingað af öllum sem sýndu mér áhuga,“ sagði Viðar.

„Ástæðan fyrir því er helst árangur liðsins í Evrópukeppnum undanfarin ár. Svo er heimavöllurinn sterkur og Malmö er líka bara fallegur staður.“

Viðar verður nú samherji landsliðsmiðvarðarins Kára Árnasonar sem gekk í raðir Malmö frá Rotherham síðasta sumar. Hann ræddi við Kára áður en hann skrifaði undir.

„Hann talar bara vel um félagið, liðið og stuðningsmennina. Hann segir Malmö alveg frábært,“ sagði Viðar Örn Kjartansson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×