Eilíft vor í paradís Illugi Jökulsson skrifar 16. ágúst 2015 10:00 Peter Minuit kaupir eyju. Árið 1624 fóru þeir að byggja virki. Það var ekki merkileg smíð, því var hróflað upp úr leir og timbri þarna syðst á eyjunni, blessunarlega var nóg af timbri því eyjan var nálega öll skógi vaxin, nema þar sem mýrar gerðu trjám ókleift að festa rætur. Flugnager úr þessum mýrum gerðu þeim erfitt fyrir meðan þeir smíðuðu virkið sitt, en þeir létu sig hafa það, vissu að þeir þurftu á vernd að halda. Þessir „þeir“ voru hollenskir skinnakaupmenn, komnir langt að heiman, en studdir flokki dáta og nokkrum embættismönnum úr heimalandinu. Verndina þurftu þeir ekki gegn hinum innfæddu sem hirtu ekki mikið um bjástur hinna hollensku við loðdýragildrur sínar, heldur gegn nágrönnum sínum úr Evrópu, einkum Englendingum, því enskir og hollenskir voru í mikilli samkeppni á sautjándu öld um nýjar nýlendur um veröld víða, og ensk herskip hikuðu ekki við að ráðast á hollenska kaupmenn af litlu eða engu tilefni. Því var virkið reist þetta sumar, og ári seinna skaut nýr hollenskur landstjóri styrkari stoðum undir nýlendu skinnakaupmannanna, sem nú var farið að kalla Nýju Amsterdam, með því að kaupa alla eyjuna þar sem virkið stóð syðst. Þau kaup hafa gjarnan verið talin eitt hið besta dæmi um hvernig óprúttnir Evrópumenn svindluðu og svínuðu á frumstæðum innbyggjurum, því hollenski landstjórinn Peter Minuit borgaði aðeins sem svarar tæpar tveimur milljónum króna fyrir alla þá eyju þar sem nú er hæst fasteignaverð í heimi: Manhattan.Hver svindlaði á hverjum? En ekki er allt sem sýnist og Minuit var líklega ekki mestur svíðingur af þeim Evrópumönnum sem þá fóru með yfirgangi um heiminn. Hann borgaði þó fyrir bækistöðina en víða á „frumstæðum“ ströndum komu Evrópumenn einfaldlega, sáu og – rændu. Og Indíánar þeir sem Minuit í Nýju Amsterdam gerði samninginn við hafa vafalítið verið hæstánægðir, þeir fengu ekki glerperlur eins og þjóðsagan segir, heldur verðmæt og fullkomin verkfæri og vopn og sitthvað fleira, en létu í staðinn skóga og sóttkveikjumýrar sem nóg var af í nágrenninu. Og eitt enn sem sýnir að það er ekki alltaf einfalt hver er að svindla á hverjum: Indíánahöfðinginn Seiseis sem gekk frá dílnum við Minuit og hirti góssið sem Hollendingar létu af hendi, hann var af ættbálki Lenapa en það voru í rauninni keppinautar þeirra Vekkvesgekar sem höfðu haft yfir Manhattan-eyju að segja. Því er ekki vafi á að bæði Minuit og Seiseis hafa gengið mjög sáttir frá samningum. Nema hvað, Nýja Amsterdam reyndist ágætlega í sveit sett til að þjónusta hina hollensku kaupahéðna og loðdýraveiðimenn sem farnir voru að láta að sér kveða þar um slóðir á strönd Norður-Ameríku. Eftir fjörutíu ár eða um 1665 var Nýja Amsterdam talin til borga í hinu vaxandi hollenska nýlenduveldi og íbúar orðnir hvorki meira né minna en 1.500.MinuitBarón leggur út í ævintýri En þá víkur sögunni eitthvað um 4.500 kílómetra í suðaustur og við staðnæmumst á norðurströnd Suður-Ameríku. Þar óx á 17. öld afar þéttur regnskógur niður í fjöruborð, nokkrar vatnsmiklar ár féllu og falla enn til sjávar frá norðanverðu Amazon-svæðinu og heitir Súrínam sú stærsta, þarna er alls staðar mjög heitt og svo mikill raki í lofti að stundum er eins og menn þurfi að synda um loftið frekar en ganga á jörðinni. Þarna kölluðu Evrópumenn Guyana á 17. öld en höfðu lítt hirt um að setjast að enda virtist fátt þangað að sækja fyrir þá. Hinir innfæddu Aravakar og Karíbar bjuggu með ströndinni og sýsluðu við veiðar á sjó á landi en höfðu ekki myndað að ráði skipulögð samfélög, en djúpt inni í myrkum regnskógunum bjuggu aðrir ættbálkar og smærri, hver sýslaði sitt. En á eyjunni Barbados í Karíbahafi var þá komin lítil bresk nýlenda og þar var árið 1650 settur niður tæplega fertugur landstjóri, Francis Willoughby hét hann, barón að tign og hafði komið nokkuð við sögu í því grimmilega borgarastríði sem þá hafði geisað á Bretlandi árum saman og endaði með að Oliver Cromwell tók völdin en kóngurinn var afhausaður. Willoughby studdi þegar hér var komið son kóngsins er gerði tilkall til ríkis föður síns, Karl II kallaðist hann. Það var fyrir hönd Karls konungsefnis sem Willoughby barón kastaði breskri eign á stórt svæði umhverfis ósa Súrínam-árinnar. En síðan gerðu menn Cromwells atlögu að konungssinnanum á Barbados, Willoughby varð að segja af sér landstjórninni í upphafi árs 1652 en fékk að halda lífi og eignum, og einsetti sér nú að skapa í eigin nafni nýlendu á Súrínam-svæðinu í Guyana. Og Willoughby gekk til verka af mikilli atorkusemi. Sem stór landeigandi á Bretlandi átti hann sand af seðlum og hóf nú markvissa auglýsingaherferð á heimaslóðum, þar sem hann hvatti fólk til að flykkjast til Willoughby-lands, eins og nýlendan var nú kölluð. Hann bauð hvorki meira né minna en paradís á jörð á svæði þar sem ríkti „eilíft vor“ og moldin var svo frjósöm að þar mátti planta hverju sem var eiginlega án fyrirhafnar; ávextir og veiðidýr nánast stukku upp í fangið á fólki í þessum auglýsingum, og konur hinna innfæddu „var ekki með nokkrum ráðum hægt að fá til að ganga í fötum“. Hversu miklu máli þetta síðasttalda skipti er ekki gott að segja, en ætli það hafi samt ekki verið svolítið freistandi fyrir glænepjulega breska alþýðustráka í kuldalegum hreysum uppsveitanna eða pestarbælinu London að kynnast slíkum konum? Líklega – en þó var annað sem skipti meira máli.Óprúttnar auglýsingar Undirrót þess borgarastríðs sem geisað hafði af mikilli hörku á Bretlandi voru trúarbragðadeilur þar sem hver höndin var upp á móti annarri: ýmsir flokkar púrítana og mótmælenda og harðlínumanna, ennfremur biskupakirkjumenn og kaþólikkar. Willoughby bauð hins vegar að í sínu landi myndu hvorki trúarbrögð né önnur gömul misklíðarefni skipta máli, og það var vissulega lokkandi fyrir þá sem orðnir voru lúnir á erjum og stríðum. Og svo fór reyndar að Willoughby-land varð að þessu leyti eins og vin umburðarlyndis og trúfrelsis í hörkulegum trúarbragðaheimi. Allir nýlendubúarnir í skóginum voru vinir til að byrja með og þegar nokkur hundruð Gyðingar birtust á svæðinu, brottflúnir frá Brasilíu, þar sem hinir kaþólsku stjórnarherrar voru að herða tökin, þá var þeim bara vel tekið af íbúum Willoughby-lands og hvorki amast við þeim né trú þeirra. Það var líka öðru að sinna. Því miður reyndist auglýsingaherferð Willoughbys hafa verið sama marki brennd og þegar Eiríkur rauði lokkaði fólk inn á ísa kaldar lendur Grænlands með því að ljúga til um landshætti. Víst var hlýtt og víst var jörðin frjósöm þegar menn kunnu með hana að fara, og vissulega voru konur hinna innfæddu berrassaðar, en lengi framan af var allt í volli. Hitinn var óbærilegur, moldin óskiljanleg og nýlendubúar, sem komu yfir hafið í trausti þess að þeir þyrftu ekki annað en rétta út höndina, þá dytti í hana gómsætur og næringarríkur ávöxtur, þeir voru fyrr en varði farnir að eltast við pöddur og maura til að drepast ekki úr hungri. Alls konar sjúkdómar gerðu vart við sig, skyrbjúgur lék marga svo illa að hárið losnaði af í stórum flygsum, húðin varð appelsínugul. Sníkjudýr úr undarlega þefjandi vatninu úr ánum áttu til að gera fólk blint, þar leyndust líka fjallgrimmir krókódílar og hafði ekkert verið minnst á þá í auglýsingaáróðri Willoughbys og hóstandi strákar frá Cornwall eða Dundee kunnu lítt að bregðast við slíkum skepnum. Að ekki sé nú talað um blóðþyrsta jagúara, eitursnáka og reiðilega Karíba sem létu ekki bjóða sér endalaust að fölbleikir langt að komnir karlhlunkar með alls konar skavanka væru endalaust að góna á þeirra léttklæddu konur. Ein og ein eiturör skaust víst út úr skógarþykkninu og hitti fyrir lostafulla nýlendumenn.WilloughbyÍturvaxinn afrískur prins En þótt við þetta væri að etja, þá seigluðust Willoughby og menn hans áfram. Matthew Parker, sem skrifað hefur nýja bók um Willoughby-land, hefur reiknað út að baróninn prúði hafi lagt að minnsta kosti 600 milljónir króna að núvirði í verkefnið og paradís á jörð skyldi vissulega rísa við Súrínam-fljót fyrr en síðar. Þegar fram í sótti virtust erfiðleikarnir þó færast sífellt í aukana. Farið yfir hafið kostaði sitt og á Bretlandi sem var illa leikið eftir borgarastríðið höfðu ekki allir efni á þeim farmiða. Mönnum gafst að vísu kostur á að vinna kauplaust sem ánauðug vinnudýr í fjögur ár og voru þá leystir út með 12 hektara landspildu, en eftir að nokkur hundruð nýlendubúar voru sestir að í Willoughby-landi, þá fór innflytjendum að fækka. En þá fann Willoughby upp á svolitlu sem átti að bjarga nýlendunni hans. Það tókst að vissu leyti, en hafði líka í för með sér að þessi „paradís á jörð“ breyttist í hreinasta helvíti – að minnsta kosti fyrir suma. En þar sem ég er búinn með plássið á síðunni, þá verð ég að láta það framhald bíða næstu viku – þegar líka segir nánar frá hollensku nýlendunni í Nýju Amsterdam og hvernig henni hafði reitt, og svo kemur loks í ljós hvernig þessir fjarlægu staðir tengdust. Og líka segir frá skörungskvenmanni sem skrifaði eina fyrstu skáldsögu breskra bókmennta, og kemur við sögu á óvæntan hátt, og einnig segir einhverra hluta vegna frá íturvöxnum austur-afrískum prinsi. Og að síðustu drukknar svo Willoughby barón. Flækjusaga Mest lesið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Lífið Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Lífið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Lífið Króli trúlofaður Lífið Fleiri fréttir Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Brúðkaup ársins 2024 Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Sjá meira
Árið 1624 fóru þeir að byggja virki. Það var ekki merkileg smíð, því var hróflað upp úr leir og timbri þarna syðst á eyjunni, blessunarlega var nóg af timbri því eyjan var nálega öll skógi vaxin, nema þar sem mýrar gerðu trjám ókleift að festa rætur. Flugnager úr þessum mýrum gerðu þeim erfitt fyrir meðan þeir smíðuðu virkið sitt, en þeir létu sig hafa það, vissu að þeir þurftu á vernd að halda. Þessir „þeir“ voru hollenskir skinnakaupmenn, komnir langt að heiman, en studdir flokki dáta og nokkrum embættismönnum úr heimalandinu. Verndina þurftu þeir ekki gegn hinum innfæddu sem hirtu ekki mikið um bjástur hinna hollensku við loðdýragildrur sínar, heldur gegn nágrönnum sínum úr Evrópu, einkum Englendingum, því enskir og hollenskir voru í mikilli samkeppni á sautjándu öld um nýjar nýlendur um veröld víða, og ensk herskip hikuðu ekki við að ráðast á hollenska kaupmenn af litlu eða engu tilefni. Því var virkið reist þetta sumar, og ári seinna skaut nýr hollenskur landstjóri styrkari stoðum undir nýlendu skinnakaupmannanna, sem nú var farið að kalla Nýju Amsterdam, með því að kaupa alla eyjuna þar sem virkið stóð syðst. Þau kaup hafa gjarnan verið talin eitt hið besta dæmi um hvernig óprúttnir Evrópumenn svindluðu og svínuðu á frumstæðum innbyggjurum, því hollenski landstjórinn Peter Minuit borgaði aðeins sem svarar tæpar tveimur milljónum króna fyrir alla þá eyju þar sem nú er hæst fasteignaverð í heimi: Manhattan.Hver svindlaði á hverjum? En ekki er allt sem sýnist og Minuit var líklega ekki mestur svíðingur af þeim Evrópumönnum sem þá fóru með yfirgangi um heiminn. Hann borgaði þó fyrir bækistöðina en víða á „frumstæðum“ ströndum komu Evrópumenn einfaldlega, sáu og – rændu. Og Indíánar þeir sem Minuit í Nýju Amsterdam gerði samninginn við hafa vafalítið verið hæstánægðir, þeir fengu ekki glerperlur eins og þjóðsagan segir, heldur verðmæt og fullkomin verkfæri og vopn og sitthvað fleira, en létu í staðinn skóga og sóttkveikjumýrar sem nóg var af í nágrenninu. Og eitt enn sem sýnir að það er ekki alltaf einfalt hver er að svindla á hverjum: Indíánahöfðinginn Seiseis sem gekk frá dílnum við Minuit og hirti góssið sem Hollendingar létu af hendi, hann var af ættbálki Lenapa en það voru í rauninni keppinautar þeirra Vekkvesgekar sem höfðu haft yfir Manhattan-eyju að segja. Því er ekki vafi á að bæði Minuit og Seiseis hafa gengið mjög sáttir frá samningum. Nema hvað, Nýja Amsterdam reyndist ágætlega í sveit sett til að þjónusta hina hollensku kaupahéðna og loðdýraveiðimenn sem farnir voru að láta að sér kveða þar um slóðir á strönd Norður-Ameríku. Eftir fjörutíu ár eða um 1665 var Nýja Amsterdam talin til borga í hinu vaxandi hollenska nýlenduveldi og íbúar orðnir hvorki meira né minna en 1.500.MinuitBarón leggur út í ævintýri En þá víkur sögunni eitthvað um 4.500 kílómetra í suðaustur og við staðnæmumst á norðurströnd Suður-Ameríku. Þar óx á 17. öld afar þéttur regnskógur niður í fjöruborð, nokkrar vatnsmiklar ár féllu og falla enn til sjávar frá norðanverðu Amazon-svæðinu og heitir Súrínam sú stærsta, þarna er alls staðar mjög heitt og svo mikill raki í lofti að stundum er eins og menn þurfi að synda um loftið frekar en ganga á jörðinni. Þarna kölluðu Evrópumenn Guyana á 17. öld en höfðu lítt hirt um að setjast að enda virtist fátt þangað að sækja fyrir þá. Hinir innfæddu Aravakar og Karíbar bjuggu með ströndinni og sýsluðu við veiðar á sjó á landi en höfðu ekki myndað að ráði skipulögð samfélög, en djúpt inni í myrkum regnskógunum bjuggu aðrir ættbálkar og smærri, hver sýslaði sitt. En á eyjunni Barbados í Karíbahafi var þá komin lítil bresk nýlenda og þar var árið 1650 settur niður tæplega fertugur landstjóri, Francis Willoughby hét hann, barón að tign og hafði komið nokkuð við sögu í því grimmilega borgarastríði sem þá hafði geisað á Bretlandi árum saman og endaði með að Oliver Cromwell tók völdin en kóngurinn var afhausaður. Willoughby studdi þegar hér var komið son kóngsins er gerði tilkall til ríkis föður síns, Karl II kallaðist hann. Það var fyrir hönd Karls konungsefnis sem Willoughby barón kastaði breskri eign á stórt svæði umhverfis ósa Súrínam-árinnar. En síðan gerðu menn Cromwells atlögu að konungssinnanum á Barbados, Willoughby varð að segja af sér landstjórninni í upphafi árs 1652 en fékk að halda lífi og eignum, og einsetti sér nú að skapa í eigin nafni nýlendu á Súrínam-svæðinu í Guyana. Og Willoughby gekk til verka af mikilli atorkusemi. Sem stór landeigandi á Bretlandi átti hann sand af seðlum og hóf nú markvissa auglýsingaherferð á heimaslóðum, þar sem hann hvatti fólk til að flykkjast til Willoughby-lands, eins og nýlendan var nú kölluð. Hann bauð hvorki meira né minna en paradís á jörð á svæði þar sem ríkti „eilíft vor“ og moldin var svo frjósöm að þar mátti planta hverju sem var eiginlega án fyrirhafnar; ávextir og veiðidýr nánast stukku upp í fangið á fólki í þessum auglýsingum, og konur hinna innfæddu „var ekki með nokkrum ráðum hægt að fá til að ganga í fötum“. Hversu miklu máli þetta síðasttalda skipti er ekki gott að segja, en ætli það hafi samt ekki verið svolítið freistandi fyrir glænepjulega breska alþýðustráka í kuldalegum hreysum uppsveitanna eða pestarbælinu London að kynnast slíkum konum? Líklega – en þó var annað sem skipti meira máli.Óprúttnar auglýsingar Undirrót þess borgarastríðs sem geisað hafði af mikilli hörku á Bretlandi voru trúarbragðadeilur þar sem hver höndin var upp á móti annarri: ýmsir flokkar púrítana og mótmælenda og harðlínumanna, ennfremur biskupakirkjumenn og kaþólikkar. Willoughby bauð hins vegar að í sínu landi myndu hvorki trúarbrögð né önnur gömul misklíðarefni skipta máli, og það var vissulega lokkandi fyrir þá sem orðnir voru lúnir á erjum og stríðum. Og svo fór reyndar að Willoughby-land varð að þessu leyti eins og vin umburðarlyndis og trúfrelsis í hörkulegum trúarbragðaheimi. Allir nýlendubúarnir í skóginum voru vinir til að byrja með og þegar nokkur hundruð Gyðingar birtust á svæðinu, brottflúnir frá Brasilíu, þar sem hinir kaþólsku stjórnarherrar voru að herða tökin, þá var þeim bara vel tekið af íbúum Willoughby-lands og hvorki amast við þeim né trú þeirra. Það var líka öðru að sinna. Því miður reyndist auglýsingaherferð Willoughbys hafa verið sama marki brennd og þegar Eiríkur rauði lokkaði fólk inn á ísa kaldar lendur Grænlands með því að ljúga til um landshætti. Víst var hlýtt og víst var jörðin frjósöm þegar menn kunnu með hana að fara, og vissulega voru konur hinna innfæddu berrassaðar, en lengi framan af var allt í volli. Hitinn var óbærilegur, moldin óskiljanleg og nýlendubúar, sem komu yfir hafið í trausti þess að þeir þyrftu ekki annað en rétta út höndina, þá dytti í hana gómsætur og næringarríkur ávöxtur, þeir voru fyrr en varði farnir að eltast við pöddur og maura til að drepast ekki úr hungri. Alls konar sjúkdómar gerðu vart við sig, skyrbjúgur lék marga svo illa að hárið losnaði af í stórum flygsum, húðin varð appelsínugul. Sníkjudýr úr undarlega þefjandi vatninu úr ánum áttu til að gera fólk blint, þar leyndust líka fjallgrimmir krókódílar og hafði ekkert verið minnst á þá í auglýsingaáróðri Willoughbys og hóstandi strákar frá Cornwall eða Dundee kunnu lítt að bregðast við slíkum skepnum. Að ekki sé nú talað um blóðþyrsta jagúara, eitursnáka og reiðilega Karíba sem létu ekki bjóða sér endalaust að fölbleikir langt að komnir karlhlunkar með alls konar skavanka væru endalaust að góna á þeirra léttklæddu konur. Ein og ein eiturör skaust víst út úr skógarþykkninu og hitti fyrir lostafulla nýlendumenn.WilloughbyÍturvaxinn afrískur prins En þótt við þetta væri að etja, þá seigluðust Willoughby og menn hans áfram. Matthew Parker, sem skrifað hefur nýja bók um Willoughby-land, hefur reiknað út að baróninn prúði hafi lagt að minnsta kosti 600 milljónir króna að núvirði í verkefnið og paradís á jörð skyldi vissulega rísa við Súrínam-fljót fyrr en síðar. Þegar fram í sótti virtust erfiðleikarnir þó færast sífellt í aukana. Farið yfir hafið kostaði sitt og á Bretlandi sem var illa leikið eftir borgarastríðið höfðu ekki allir efni á þeim farmiða. Mönnum gafst að vísu kostur á að vinna kauplaust sem ánauðug vinnudýr í fjögur ár og voru þá leystir út með 12 hektara landspildu, en eftir að nokkur hundruð nýlendubúar voru sestir að í Willoughby-landi, þá fór innflytjendum að fækka. En þá fann Willoughby upp á svolitlu sem átti að bjarga nýlendunni hans. Það tókst að vissu leyti, en hafði líka í för með sér að þessi „paradís á jörð“ breyttist í hreinasta helvíti – að minnsta kosti fyrir suma. En þar sem ég er búinn með plássið á síðunni, þá verð ég að láta það framhald bíða næstu viku – þegar líka segir nánar frá hollensku nýlendunni í Nýju Amsterdam og hvernig henni hafði reitt, og svo kemur loks í ljós hvernig þessir fjarlægu staðir tengdust. Og líka segir frá skörungskvenmanni sem skrifaði eina fyrstu skáldsögu breskra bókmennta, og kemur við sögu á óvæntan hátt, og einnig segir einhverra hluta vegna frá íturvöxnum austur-afrískum prinsi. Og að síðustu drukknar svo Willoughby barón.
Flækjusaga Mest lesið Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Lífið Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Lífið Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lífið Brúðkaup ársins 2024 Lífið Jólagjafir íslenskra vinnustaða Lífið Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Lífið Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Lífið Dagbók móður: „Það var eins og þeir sæju eitthvað sem ég sá ekki” Áskorun Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Lífið Króli trúlofaður Lífið Fleiri fréttir Steven og Guðný Ósk eru nýtt par Fræga fólkið streymdi á hápunkt ársins í Þjóðleikhúsinu Sjáðu Sandler snúa aftur sem Happy Gilmore í nýrri kitlu Björn Ingi leikur í ofurhetjumynd Eiga nú glöðustu hunda í heimi Lést eftir að hafa fallið úr bíl á ferð Brúðkaup ársins 2024 Bestu, stærstu, slökustu og verstu myndir ársins 2024 Króli trúlofaður Jólagjafir íslenskra vinnustaða Jólagjöf ársins er stóllinn sem getur allt nema flogið Besta jólagjöfin að sjá bata foreldranna Smakkaði skötu í fyrsta sinn undir eftirliti sérfræðinga Guðmundur „ofpeppaðist“ og reif sig á kassann Hafi ekki tekið þátt í herferð gegn Lively Einn frægasti krókódíll í heimi allur Myndaveisla: Rauð jól hjá Jökli í Kaleo „Í stórgróða“ að eyða jólunum á Tene Ellen Margrét og Arnmundur orðin hjón Kolféll fyrir Amsterdam og hollenskum strák Límdi fyrir munninn á öllum við borðið „Fyrstu jólin án hans og sætið hans verður tómt“ Stjörnulífið: Bikiníjól og jól í Japan Frægir fundu ástina 2024 „Að horfa upp á ofbeldi er jafn mikið ofbeldi og að verða fyrir því“ Netverjar koma „bomsum“ Ingu á Bessastöðum til varnar Dóttir Elínar Mettu og Sigurðar komin með nafn 107 ára gömul og dansar eins og unglamb Krakkatían: Jólasveinar, stjörnustríð og þjóðsögur Mest skreytta jólahúsið í Hveragerði Sjá meira