Sport

Vann þrjá með Ólafi en vinnur hann líka einn með Guðjóni Val?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tveir góðir Guðjón Valur Sigurðsson og Siarhei Rutenka.
Tveir góðir Guðjón Valur Sigurðsson og Siarhei Rutenka. Vísir/Getty
Siarhei Rutenka, liðsfélagi Guðjóns Vals Sigurðssonar hjá Barcelona, getur komist í fámennan hóp á sunnudaginn fari spænska liðið alla leið og vinni Meistaradeildina.

Rutenka hefur unnið þennan titil fimm sinnum áður en aðeins fjórir leikmenn hafa orðið Evrópumeistarar meistaraliða oftar en fimm sinnum.

Siarhei Rutenka vann Meistaradeildina síðast með Barcelona 2011 og fyrst með slóvenska liðinu Celje árið 2004. Á árunum 2006 til 2009 unnu hann og Ólafur Stefánsson Meistaradeildina þrisvar saman með Ciudad Real.

Ólafur Stefánsson vann Meistaradeildina fjórum sinnum á ferlinum en þetta er bikarinn sem Guðjón Val vantar til að fullkomna frábæran feril.

Þetta er fimmta árið í röð sem hann er með liði á úrslitahelgi Meistaradeildarinnar. Fyrstu þrjú árin tapaði lið hans í undanúrslitunum og í fyrra fór hann með Kiel alla leið í úrslitaleikinn en þar þurfti liðið að sætta sig við tap á móti Flensburg.

Íslenskt handboltaáhugafólk vonast eftir Íslendingaslag í úrslitaleiknum klukkan 16.00 á morgun en auk Guðjóns Vals hjá Barcelona eru tveir Íslendingar í þýska liðinu THW Kiel, Alfreð Gíslason þjálfar liðið og Aron Pálmarsson á möguleika að vinna Meistaradeildina í þriðja sinn sem leikmaður. Alfreð hefur unnið þessa keppni þrisvar sem þjálfari.

Allir leikir úrslitahelgarinnar verða í beinni á Stöð 2 Sport. Undanúrslitaleikirnir fara fram í dag en þar tekur Barcelona á móti pólska liðinu Vive Targi Kielce klukkan 13.15 og klukkan 16.00 mætast síðan THW Kiel og ungverska liðið MKB Veszprém.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×