Innlent

Óveðrið komið á Suðurnesjum: Hálka og snjóþekja á vegum víða um land

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Vegagerðin varar við færð víðsvegar um land. Mynd úr safni.
Vegagerðin varar við færð víðsvegar um land. Mynd úr safni. Vísir/Stefán
Hálka og snjóþekja er á flestum vegum á Suður- og Suðvesturlandi, þar á meðal á stofnbrautum á höfuðborgarsvæðinu. Farið er að hvessa á Suðurnesjum og óveður og slæmt skyggni er á Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi.

Sjá einnig: Fylgstu með lægðinni nálgast á gagnvirku korti

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Þar segir einnig að óveðrið komi yfir höfuðborgarsvæðið eftir klukkan níu en spáð er dimmri hríð undir hádegi og 18-23 metrum á sekúndu.

Í tilkynningunni segir að hálkublettir og óveður sé á Kjalarnesi sem og undir Eyjafjöllum og við Vík. Vegagerðin segir að á Vesturlandi sé hálka eða snjóþekja víðast hvar og að þungfært og skafrenningur sé á Fróðárheiði.

Hálka eða snjóþekja og skafrenningur er á flestum leiðum á Vestfjörðum og snjóþekja og stórhríð er á Gemlufallsheiði. Vegagerðin segir að þungfært sé á Kleifarheiði en þæfingsfærð og skafrenningur í Patreksfirði og á Klettsháls. 

Sjá einnig: 120 björgunar­sveitar­menn í viðbragðsstöðu

Ófært er um Hrafnseyrarheiði, Dynjandisheiði og á Bjarnarfjarðarhálsi og þaðan norður í Árneshrepp. Hálka eða snjóþekja allvíða á Norður- og Austurlandi og þæfingsfærð er á Siglufjarðarvegi en hálka og skafrenningur á Víkurskarði. 

Flughálka er á Dettifossvegi en þæfingsfærð er á Öxi og Breiðdalsheiði en hálkublettir og smá éljagangur eru með suðausturströndinni.


Tengdar fréttir

Raskanir á ferðum strætó í dag

Þegar bætir í vind og úrkomu á höfuðborgarsvæðinu má búast við að götur í úthverfum verði ófærar fyrir strætisvagna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×