Gagnrýni

Mjög, mjög gott

Brynhildur Björnsdóttir skrifar
Bækur

Þýska húsið

Arnaldur Indriðason

Vaka-Helgafell

Kápa Ragnar Helgi Ólafsson



Ég gleymi aldrei tilfinningunni þegar ég las Mýrina, volga úr fyrstu prentun, og gerði mér grein fyrir því að Íslendingur gæti í alvöru skrifað glæpasögur sem væru jafngóðar og það sem mér fannst best og merkilegast í þeim geira í útlöndum.

Þetta var áður en Mýrin var seld til erlendra útgefenda, áður en Arnaldur varð heimsfrægur, það var engin staðfesting önnur en þessi tilfinning: að bera kennsl á eitthvað mjög, mjög gott.

Síðan hefur Arnaldur skrifað átján glæpasögur og svo sannarlega sigrað heiminn og rutt brautina fyrir aðra íslenska höfunda sem vildu feta glæpabrautina. Ég viðurkenni að mér finnst ekki allar þessar átján hafa til að bera þau gæði sem Mýrin hafði til að bera, en nokkrar komast nærri því.

Þýska húsið gerist á gríðarlega spennandi tímabili í sögu Íslendinga. Árið er 1941, breski herinn er tiltölulega nýkominn til bjargar og er þegar á leið burtu aftur til að rýma fyrir þeim bandaríska.

Reykjavík er að breytast úr litlu þorpi í höfuðborg, framandi gestir og með þeim ný tækifæri, peningar og atvinna og fólk flykkist úr sveitinni til að freista gæfunnar og verða borgarfólk með fólki.

Sagan byrjar á því að farandsölumaður flýtir sér heim úr sölutúr því hann hefur af því spurnir að stúlkan hans sé farin að vera með hermönnum, nánast eins og að á meðan hann brá sér frá í nokkra daga hafi allur heimurinn breyst.

Svona er andrúmsloftið í Reykjavík í sögunni, enginn veit hvaðan á hann eða hana stendur veðrið, allt er nýtt og framandi, meira að segja rannsóknarlögreglumennirnir eru reynslulitlir, ungir og óharðnaðir í heimi þar sem morð er framið með skammbyssu en ekki ljá.

Flóvent og Thorson, sem dyggir lesendur Arnaldar kannast við úr bókinni Skuggasund, eru leiddir hér saman í fyrsta sinn til rannsóknar á morði í lítilli leiguíbúð í Reykjavík þar sem grunur leikur á að morðvopnið sé úr fórum hinna erlendu gesta.

Rannsóknin snertir á brýnustu málum þessa tíma, ástandinu, flutningunum úr sveit í borg, nasistum og nútíma sem skellur á af óþægilegum krafti. En bókin tekur einnig á sígildum viðfangsefnum allra tíma: valdi og kúgun, sambandi foreldra og barna og því að horfast í augu við sjálfan sig og það sem maður er.

Persónurnar eru að vanda vel skrifaðar og marglaga en ég hefði viljað sjá konurnar skrifaðar í fleiri víddum, þar sem þær verða nokkuð klisjukenndar. Hér er eitt tálkvendi sem ætlar sér að láta drauma sína rætast, sama hvað það kostar, ein hugsjóna- og ástardrifin klappstýra vonds vísindamanns og ein syrgjandi móðir sem við sjáum aðeins í stutta stund en er þó heilsteyptust þessara kvenna.

Þýska húsið er ein af betri bókum Arnaldar. Honum tekst vel að lýsa borg í örum vexti, svo örum að fólk nánast hættir að rata, fólki sem stendur á þröskuldi nútíma sem það er mismunandi í stakk búið til að taka þátt í og svo er þarna spennandi glæpaflétta í hryggjarstykkinu sem tekur ýmsar óvæntar sveigjur og heldur lesandanum við efnið allt fram á síðustu síðu. Mjög, mjög gott.



Niðurstaða:
Spennandi og feiknavel skrifuð þar sem bæði samfélagslýsingar og glæpamál halda lesandanum kirfilega við efnið. Með betri bókum Arnaldar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×