Fótbolti

Voðaverkin í París koma í veg fyrir stórleik í Brussel

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kevin De Bruyne er lykilmaður hjá belgíska landsliðinu.
Kevin De Bruyne er lykilmaður hjá belgíska landsliðinu. Vísir/Getty
Áætlaður vináttulandsleikur á milli Belga og Spánverja í kvöld hefur verið flautaður af vegna öryggisástæðna í kjölfarið af hryðjuverkunum í París síðastliðinn föstudag.

129 manns létust í voðaverkunum í París en mitt í miðju þeirra var vináttulandsleikur Frakka og Þjóðverja á Stade de France.

Franskir saksóknarar hafa gefið það út að Belgíumaður hafi verið aðalskipuleggjandi hryðjuverkanna og stjórnvöld í Belgíu hafa aukið eftirlit í landinu vegna ótta við fleiri árásir.

Knattspyrnusamband Belgíu tók í framhaldinu þá ákvörðun að hætta við leikinn sem átti að fara fram King Baudouin Stadium í höfuðborginni Brussel en sú ákvörðun var tekin eftir samráð við spænska sambandið.

Franska landsliðið er aftur á móti mætti til Englands þar sem Frakkar munu mæta Englendingum í vináttulandsleik á Wembley í London í kvöld.

Það biðu margir spenntir eftir leik Belgíu og Spánar enda tvö af sterkustu knattspyrnulandsliðum heims. Belgar eru eins og er í efsta sæti heimslista FIFA en Spánverjar eru í sjötta sæti.

Belgar unnu 3-1 sigur á Ítölum á föstudagskvöldið var en á sama tíma unnu Spánverjar 2-0 sigur á Englendingum.

Báðar þjóðir tryggðu sér líka örugglega sæti á Evrópumótinu í Frakklandi á næsta ári.

Ekki er vitað hvort leikurinn verður spilaður síðar eða hvort hann mun aldrei fara fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×