Dick Pound, fyrrum formaður Alþjóðalyfjaeftirlitsins, WADA, segir að það ætti að vera auðvelt fyrir Rússa að gera þær lagfæringar sem þörf er á til að geta keppt á Ólympíuleikunum í Ríó næsta sumar.
Aðeins níu mánuðir eru í leikana en rússneskir frjálsíþróttamenn voru nýverið dæmdir í alhliða bann frá öllum alþjóðlegum keppnum fyrir stórfellda og kerfisbundna lyfjamisnotkun. Pound fór fyrir skýrslunefnd sem rannsakaði brot Rússa og tilkynnti niðurstöður sínar fyrr í mánuðinum.
„Rússland byggði Sochi [fyrir Vetrarólympíuleikana 2014] á sjö mánuðum þannig að þetta ætti að vera barnaleikur fyrir þá,“ sagði Pound í viðtali við Reuters.
Sjá einnig: Stöðug endurnýjun Rússa grunsamleg
Rússar vörðu 51 milljarði Bandaríkjadala að gerbreyta Sochi og byggja upp alla þá aðstöðu sem þörf var fyrir vegna Vetrarólympíuleikanna í fyrra.
Pound segir að stjórnvöld verði að bregðast skjótt við. Sjá þarf til þess að lyfjaeftirlitsstofnun Rússlands verði óháð og þjálfunaraðferðir gömlu Sovétríkjanna verði aflagðar.
„Ég held að níu mánuðir séu of skammur tími til að breyta þeirri menningu og hugarfari sem hefur verið ríkjandi en það er ýmislegt hægt að gera á þeim tíma sem hefur sömu niðurstöðu.“
Sjá einnig: Rússar verði settir í bann
Alþjóðafrjálsíþróttasambandið, IAAF, hefur tilkynnt að fimm manna rannsóknarnefnd hefur verið sett á laggirnar til að fylgjast með enduruppbyggingu rússneska lyfjaeftirlitskerfisins.
Rune Andersen, Norðmaður sem er í forsvari fyrir nefndina, segir ómögulegt að segja hversu langan tíma það muni taka. Leikarnir í Ríó hefjast þann 5. ágúst.
