Bernie Ecclestone, einráður í Formúlu 1 segir að Formúla 1 sé eins og gamalt hús sem þurfi að rífa. Hann vill byggja nýtt á grunninum.
Ecclestone sagði í viðtali við þýsku sjónvarpsstöðina ZDF að Formúla 1 ætti að taka mark á óskum áhorfenda.
„Það ætti að setja nokkra vel valda einstaklinga saman í hóp og láta þá endurskrifa reglurnar í Formúlu 1,“ sagði Ecclestone í viðtalinu.
Hann sagði ekkert um hvaða einstaklingar hann vildi að væru í slíkum hóp. Hann vill að aðdáendur Formúlu 1 fái að hafa áhrif á þróun reglnanna, því á endanum sé markmiðið að skemmta þeim.
„Við ættum að spyrja almenning hvað honum líkar í Formúlu 1 í dag og hvað honum líkaði best áður. Einhverjir munu segja að ég sé of gamall. Unga fólkið í dag er aðeins öðruvísi, svo við þurfum að byrja frá grunni,“ sagði Ecclestone.
„Núverandi reglur eru eins og gamalt hús sem fólk heldur áfram að dytta að, það þarf að rífa það niður og byrja frá grunni,“ bætti Ecclestone við.
Hann gagnrýndi einnig hversu tæknilega flókin Formúla 1 er. Hann segir að verkfræðingar stjórni ökumönnum og keppnum of mikið.
„Ökumennirnir sitja á ráslínunni en það er í raun verkfræðingur sem ræsir keppnina hjá hverjum og einum, það ætti ekki að vera þannig.
Ökumenn ættu að standa einir frá því að keppnin er ræst. Þeir þurfa ekki einhvern til að segja sér hvað liðsfélagi þeirra er að gera í einhverri beygju eða eitthvað álíka,“ sagi Ecclestone að lokum.

