Mikil rigning var í upphafi æfingarinnar, þurr lína tók þó að myndast þegar á leið. Það var þó of seint að setja þurr dekk undir.
Rosberg stýrði bílnum vel í erfiðum aðstæðum og var langt um fljótastur. Hann var rúmlega 1,2 sekúndum á undan Daniil Kvyat sem varð annar á Red Bull. Liðsfélagi Kvyat, Daniel Ricciardo varð þriðji.
Lewis Hamilton á Mercedes varð fimmti 1,7 sekúndu á eftir Rosberg.
Seinni æfingu dagsins var aflýst eftir að hafa verið fyrst frestað tímabundið. Sjúkraþyrlan gat ekki tekið á loft og því varð að hætta við æfinguna. Einnig var hætta á eldingum sem ógnuðu öryggi brautarstarfsmanna.
Svipuðum aðstæðum hefur verið spáð á morgun. Vafi er því á hvort tímatakan fari fram á morgun. Ef ómögulegt verður að láta tímatökuna fara fram á morgun fer hún fram fyrir keppnina á sunnudag. Sú aðstaða hefur örsjaldan komið fyrir.
Bein útsending frá tímatökunni hefst á Stöð 2 Sport klukkan 17:50 á morgun. Bein útsending frá keppninni hefst svo klukkan 18:30 á sunnudag.
Hér fyrir neðan má finna öll helstu úrslit helgarinnar á gagnvirku brautarkorti sem uppfærist eftir því sem líður á keppnishelgina.