Fótbolti

Svona kemst Tyrkland beint á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Arda Turan fagnar eftir sigurinn á Tékkum um helgina.
Arda Turan fagnar eftir sigurinn á Tékkum um helgina. Vísir/Getty
Það er allt undir hjá Tyrklandi gegn Íslandi í kvöld þegar liðin mætast í lokaumferð undankeppni EM 2016 í Konya í kvöld.

Ísland og Tékkland hafa sem kunnugt er bæði tryggt sér efstu tvö sætin í A-riðli og þar með þátttökurétt á EM. En Tyrkland (15 stig) á í harðri baráttu við Holland (13 stig) um þriðja sætið en Hollendingar mæta Tékkum á heimavelli í kvöld.

Af liðunum níu sem enda í þriðja sæti riðlanna í undankeppninni kemst það lið sem er með bestan árangur af þeim beint áfram á EM og þarf ekki að taka þátt í umspili í næsta mánuði.

Tyrkland á möguleika að vera það lið en þyrfti til þess að vinna Ísland í kvöld og treysta á hagstæð úrslit.

Sem stendur er Ungverjaland (H-riðill) með bestan árangur liðanna í þriðja sæti. Tyrkland kemst upp fyrir Ungverja með sigri í kvöld ef að Kasakstan tekst að vinna Lettland í Riga í kvöld.

Sjá einnig: Litla Ísland er haldreipi hollensku stjarnanna

Ungverjar munu því fylgjast spenntir með viðureignunum í riðli Íslands í kvöld en ljóst er að önnur lið sem enduðu í þriðja sæti verða að fara í umspil. Þau eru Úkraína, Írland, Slóvenía, Svíþjóð, Danmörk en úrslit eiga enn eftir að ráðast í B- og H-riðlum.

Þess má svo geta að ef Holland endar í þriðja sæti í riðli Íslands þá fer liðið einnig í umspil enda færu Ungverjar þá beint á EM.


Tengdar fréttir

Gylfi: Verðum að nýta þeirra veikleika

Gylfi Þór Sigurðsson á ekki von á auðveldum leik gegn Tyrklandi í kvöld en hann segir alla í hópnum stefna að því sama - að vinna leikinn og riðilinn.

Litla Ísland er haldreipi hollensku stjarnanna

Íslensku landsliðsstrákarnir þurfa bara að treysta á sig sjálfa í baráttunni um toppsæti A-riðils undankeppni EM 2016 þrátt fyrir að hafa misst Lettaleikinn niður í jafntefli um helgina. Íslenska liðið var ósigrað á Laugardalsvelli í undankeppninni sem hefur ekki gerst áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×