Fótbolti

Spænskir miðlar ósammála um fjölda marka hjá Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Vísir/EPA
Cristiano Ronaldo skoraði í gær bæði mörk Real Madrid í 2-0 sigri á Kára Árnasyni og félögum í Malmö í annarri umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Samkvæmt opinberum gögnum voru þetta mörk númer 500 og 501 á ferli Ronaldo og mörk númer 322 og 323 fyrir Real Madrid.

Hann braut því bæði 500 marka múrinn og jafnaði markamet Raúl fyrir Real Madrid í þessum leik í gær.

Það eru hinsvegar ekki allir spænskir miðlar sammála um hversu mörg mörk Cristiano Ronaldo sé búinn að skora fyrir Real Madrid. Kannski er það ekkert skrýtið að menn sé búinn að missa töluna eftir öll þessi mörk hjá þessum frábæra fótboltamanni.

Spænska stórblaðið Marca og heimasíða Real Madrid eru með einu marki meira skráð á hann sem þýðir að samkvæmt þeirra talningu þá er hann þegar búinn að bæta markamet Raúl.

Markið umdeilda kom í deildarleik á móti Real Sociedad í september 2010. Ronaldo tók þá aukaspyrnu sem hafði viðkomu í liðsfélaga hans Pepe á leið sinni í markið.

Spænska knattspyrnusambandið, UEFA og fleiri spænskir fjölmiðlar skrá markið réttilega á Pepe en Marca og sjálft félagið ákváðu að skrá það frekar á Ronaldo.

Það er hægt að sjá markið umdeilda í myndbandinu hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×