Íslenski boltinn

Bjarni: Á von á því að Hólmbert verði klár fyrir laugardaginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Hólmnbert kemur KR í 2-0 gegn ÍBV í undanúrslitum bikarkeppninnar.
Hólmnbert kemur KR í 2-0 gegn ÍBV í undanúrslitum bikarkeppninnar. vísir/stefán
Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, gerir ráð fyrir að geta notað framherjann Hólmbert Aron Friðjónsson í bikarúrslitaleiknum gegn Val á laugardaginn.

Hólmbert, sem kom til KR frá Celtic í félagaskiptaglugganum, fór meiddur af velli eftir 36 mínútna leik í 2-0 sigrinum á Fylki á mánudaginn og síðan hefur ríkt óvissa með þátttöku hans í úrslitaleiknum gegn Val á laugardaginn.

„Hann tók þátt í hluta af æfingunni nú í hádeginu og ég á von á því að hann verði klár fyrir laugardaginn,“ sagði Bjarni á fundi sem var haldinn vegna bikarúrslitaleiksins í höfuðstöðvum KSÍ í dag.

Þetta eru góðar fréttir fyrir KR-inga en Hólmbert hefur komið sterkur inn í lið Vesturbæinga og skorað fjögur mörk í fimm leikjum fyrir KR í deild og bikar.

Hólmbert hefur einu sinni áður tekið þátt í bikarúrslitaleik. Það var fyrir tveimur árum þegar hann var leikmaður Fram en Safamýrarpiltar unnu þá dramatískan sigur á Stjörnunni eftir vítaspyrnukeppni. Hólmbert skoraði í leiknum sjálfum og úr sinni spyrnu í vítaspyrnukeppninni.


Tengdar fréttir

Patrick, Haukur Páll og Ingvar myndu ekki spila væri leikurinn í kvöld

Patrick Pedersen, aðalframherji Valsmanna í Pepsi-deild karla, er í kapphlaupi við tímann fyrir bikarúrslitaleikinn gegn KR á laugardaginn. Ólafur Jóhannesson, þjálfari Valsmanna, segir í samtali við Vísi að Pedersen sé ekki fótbrotinn. Um helmingslíkur eru á því að sá danski spili á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×