Íslenski boltinn

KSÍ skiptir um mótakerfi og smíðar nýjan vef

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nýtt mótakerfi og nýr vefur er í vinnslu hjá Knattspyrnusambandi Íslands.
Nýtt mótakerfi og nýr vefur er í vinnslu hjá Knattspyrnusambandi Íslands. KSÍ

Knattspyrnusamband Íslands er að fara í stórar breytingar í skráningu leikja og framsetningunni á heimasíðu sambandsins.

KSÍ segir frá fyrirhuguðum breytingum á heimasíðunni, sömu síður og heyrir fljótlega sögunni til.

„KSÍ er um þessar mundir í því verkefni að skipta um mótakerfi og samhliða því að smíða nýjan vef, auk þess að taka í notkun sérstakt app fyrir fylgjendur íslenskrar knattspyrnu,“ segir í fréttinni.

KSÍ varar við því að þessi tími kalli mögulega á truflanir á vef og upplýsingakerfi en tíminn er auðvitað valinn þegar minnst er í gangi í íslenskri knattspyrnu.

„Þessu umfangsmikla verkefni fylgja ýmsar tímafrekar aðgerðir eins og yfirfærsla gagna, smíði og prófun gagnatenginga. Af þeim sökum kann að vera að ákveðnar gagnabirtingar og síður á núverandi vef KSÍ virki ekki sem skyldi og óskar KSÍ eftir biðlund notenda hvað það varðar. Verkefnið er sem fyrr segir afar umfangsmikið,“ segir í fréttinni.

Vonir standa til hjá sambandinu að auka upplýsingagjöf til áhugasamra um íslenska knattspyrnu.

„Nýtt mótakerfi (COMET) er að mörgu leyti bylting í starfi KSÍ og félaganna og nýr vefur KSÍ verður glæsilegur með ýmsa áhugaverða virkni. Allt verður þetta keyrt í gang eins fljótt og hægt er og kynnt vel og vandlega, en eins og í stórum verkefnum er yfirleitt best að fara sér að engu óðslega,“ segir í fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×