Íslenski boltinn

Víkingar vilja finna nýtt nafn á Safamýrarsvæðið og biðja um hjálp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Víkingar eru Íslandsmeistarar karla í fótbolta og tryggðu sér titilinn í Víkinni. Þeir ráða einnig fyrir gömlu Safmýri Framara.
Víkingar eru Íslandsmeistarar karla í fótbolta og tryggðu sér titilinn í Víkinni. Þeir ráða einnig fyrir gömlu Safmýri Framara. Vísir/Diego

Víkingar vilja eyða öllum tengingum við Fram í Safamýrinni með því að finna nýtt Víkingsnafn á svæðið. Víkingar fengu beiðni um að senda inn hugmyndir á samfélagsmiðlum félagsins.

Víkingar tóku yfir Framsvæðið í Safamýri sumarið 2022 þegar Framarar fluttu endanlega upp í Úlfarsárdal sunnan Úlfarsfells.

Svæðið hefur alltaf verið þekkt sem Safmýri og mjög tengt Fram. Víkingar tóku mannvirkin í Safamýri í gegn innan sem utan og í framhaldinu voru settar upp nýjar merkingar þar sem allt var málað í Víkingslitunum.

Nú ætla Víkingar að stíga lokaskrefið og nefna svæðið upp á nýtt.

Á fundi aðalstjórnar Knattspyrnufélagsins Víkings þann 18. nóvember var samþykkt að skipa nafnanefnd sem falið var það hlutverk að kalla eftir og fara yfir hugmyndir/tillögur um nýtt nafn á íþróttasvæði Víkings í Safamýri.

Nafnanefndin mun strax opna fyrir tillögur frá Víkingssamfélaginu um nýtt nafn fyrir íþróttasvæði Víkings í Safamýri og óskar eftir því að allar tillögur liggi fyrir eigi síðar en 14. desember næstkomandi. Nafnanefnd mun í kjölfarið gera tillögu/tillögur um nýtt nafn til aðalstjórnar félagsins.

Í nafnanefndinni sitja þau Björn Bjartmarz, Nanna Guðmundsdóttir, Ásdís Jóna Sigurjónsdóttir, Ágúst Ingi Jónsson og Valgerður Arnardóttir.

Öllum tillögum skal skila inn undir nafni og skal með fylgja með stuttur rökstuðningur fyrir tillögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×