Fótbolti

Sara Björk skoraði en Rosengård tapaði samt fyrstu stigunum í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Mynd/KSÍ
Sænska toppliðið Rosengård byrjar ekki vel eftir HM-fríið því liðið náði aðeins jafntefli á móti Mallbackens IF Sunne í sænsku kvennadeildinni í kvöld.

Íslenska landsliðskonan Sara Björk Gunnarsdóttir bjargaði stiginu með því að skora jöfnunarmarkið 28 mínútum fyrir leikslok.

FC Rosengård vann alla sjö leiki sína fyrir HM-fríið og lið Mallbackens IF Sunne sat í fallsæti með aðeins þrjú stig fyrir þennan leik.

Zoe Ness kom Mallbackens IF Sunne í 1-0 strax á 9. mínútu og heimaliðið var yfir í 53 mínútur í leiknum.

Sara Björk náði að jafna metin á 62. mínútu en hún spilaði á þriggja manna miðju liðsins í kvöld. Sara Björk nældi sér líka í gult spjald strax á 19. mínútu.

Þetta var fimmta mark Söru í átta leikjum í sænsku deildinni á þessu tímabili og er hún í hópi markahæsti leikmanna deildarinnar.

Rosengård tapaði þarna sínum fyrstu stigum á tímabilinu en liðið hefur enn tveggja stiga forskot á Linköping sem vann 2-1 sigur á Umeå í kvöld.

Glódís Perla Viggósdóttir og félagar hennar í Eskilstuna eru siðan þremur stigum á eftir Rosengård í þriðja sæti deildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×