Fótbolti

Stelpurnar hennar Elísabetar fengu á sig þrjú mörk í seinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elísa Viðarsdóttir
Elísa Viðarsdóttir Vísir/Stefán
Íslendingaliðið Kristianstad tapaði í kvöld 3-2 á móti Piteå á heimavelli sínum í fyrsta leik liðsins eftir að sænska deildin fór aftur af stað eftir HM-frí.

Kristianstad komst í 1-0 í leiknum en fékk á sig þrjú mörk í seinni hálfleiknum á móti liði sem var með jafnmörg stig fyrir leikinn í kvöld.

Elísabet Gunnarsdóttir er þjálfari Kristianstad-liðsins sem vann 4 af fyrstu 6 leikjum tímabilsins en hefur nú tapað tveimur leikjum í röð þótt að eins og hálfs mánaðar HM-frí hafi reyndar verið á milli leikjanna.

Johanna Rasmussen skoraði bæði mörk Kristianstad í leiknum en hún kom liðinu í 1-0 á 24. mínútu og minnkað muninn í 3-2 á 90. mínútu leiksins.

Piteå skoraði þrjú mörk í millitíðinni en þau komu öll í seinni hálfleiknum eða á 49., 73. og 80. mínútu leiksins. Síðasta mark Piteå skoraði June Pedersen beint úr hornspyrnu en hin gerðu þær Hanna Pettersson og Nina Jakobsson.

Kristianstad sótti mikið í lokin en tókst ekki að jafna leikinn og tryggja sér stig.

Systurnar Margrét Lára Viðarsdóttir og Elísa Viðarsdóttir voru báðar í byrjunarliði Kristianstad. Elísa spilaði í þriggja manna vörn en Margrét Lára á fimm manna miðju samkvæmt uppsetningu liðsins á heimsíðu sænska knattspyrnusambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×