Viðskipti innlent

Þórir Guðmundsson ráðinn deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Þórir Guðmundsson
Þórir Guðmundsson mynd/aðsend
Þórir Guðmundsson hefur verið ráðinn deildarstjóri Rauða krossins í Reykjavík. Hann hefur undanfarin ár stýrt alþjóðastarfi Rauða krossins hér á landi og aðstoð við hælisleitendur og flóttamenn, en mun nú leiða starf félagsins í höfuðborginni. Þórir var valinn úr hópi tæplega 60 umsækjenda, en staðan var auglýst í byrjun júní. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Rauða krossinum.

„Framundan er áframhaldandi uppbyggingarstarf hjá deildinni, en hún er sú stærsta innan hreyfingarinnar hér á landi. Við í stjórn Rauða krossins í Reykjavík erum afar ánægð að fá Þóri, með hans miklu reynslu og þekkingu á starfi Rauða krossins, til að leiða starfsemina,“ sagði Kristín S. Hjálmtýsdóttir, formaður deildarinnar.

Þórir hóf störf fyrir Rauða krossinn árið 1996, fyrst á vegum Alþjóða Rauða krossins í gömlu Sovétríkjunum og Asíu en síðar sem sviðsstjóri upplýsingastarfs, fjáröflunar og fræðslu. Frá 2008 hefur Þórir stýrt alþjóðastarfi félagsins auk annarra verkefna. Hann hefur einnig unnið við fjölmiðla, lengst af á Stöð tvö sem varafréttastjóri. Þórir mun hefja störf sem deildarstjóri í lok ágúst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×