Innlent

Píratar stærri en stjórnarflokkarnir til samans

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Aðeins þrír þingmenn sitja nú á þingi fyrir Pírata en þeir yrðu áttfalt fleiri ef kosið yrði í dag.
Aðeins þrír þingmenn sitja nú á þingi fyrir Pírata en þeir yrðu áttfalt fleiri ef kosið yrði í dag. VÍSIR/VILHELM
Enn eykst fylgi Pírata en flokkurinn er nú með um 34,1% fylgi á landinu öllu en þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúsli Gallup. Ef kosið yrði í dag fengju Píratar alls um 24 þingmenn kjörna og mælist flokkurinn stærri en stjórnarflokkarnir, Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn, til samans. Ríkisútvarpið greindi fyrst frá.

Framsóknarflokkurinn hefur ekki notið minni stuðnings síðan Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tók við stjórntaumum í flokknum í byrjun árs 2009. Um 8,9 prósent þjóðarinnar kysi flokkinn yrði gengið til kosninga í dag.

Þá mælist Sjálfstæðisflokkurinn með stuðning 23 prósent landsmanna og Samfylkingin er 12,4 prósent fylgi. Björt framtíð mælist með 7,4 prósent og Vinstri græn nýtur stuðnings 9,8 prósent Íslendinga.

Píratar eru sem fyrr segir langstærsti flokkur landsins, með 34,1 prósent, sem er um 2,2 prósentum meira en stjórnarflokkarnir fá til samans.

Yrðu þetta niðurstöður kosninga fengju Píratar 24 þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn hlyti fimmtán, Samfylkingin átta, Vinstri Græn fengju sex og Framsóknarflokkur og Björt framtíð fengju hvor sína 5 þingmenn.

Þá eru Píratar stærstir í öllum kjördæmum landsins, nema norðvesturkjördæmi.

Gallup mældi fylgi við flokka frá 30. apríl til 28. maí. 8500 einstaklingar voru valdir af handahófi, en svarhlutfallið var 57,2%. Spurt var: „Ef kosið yrði til Alþingis í dag, hvaða flokk myndir þú kjósa?“. 10,9 prósent aðspurðra tóku ekki afstöðu milli flokka eða neituðu að svara en 10,8 prósent þeirra sögðust skila auðu eða ekki myndu kjósa. 78,4% nefndu flokk. 


Tengdar fréttir

Bubbi orðinn stuðningsmaður Pírata

Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens ætlar að kjósa Pírata í næstu kosningum þrátt fyrir málflutning þeirra í tengslum við ólöglegt niðurhal á tónlist.

Píratar langstærstir

Mælast með rúmlega þrjátíu prósent fylgi í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×