Fótbolti

Segir orðspor Real Madrid undir á Bernabéu í kvöld

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Daniel Carvajal dregur ekki úr mikilvægi leiksins.
Daniel Carvajal dregur ekki úr mikilvægi leiksins. vísir/getty
Stórliðin Real Madrid og Juventus mætast í kvöld í seinni leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta.

Juventus er 2-1 yfir eftir fyrri leikinn á heimavelli og verður Real Madrid því að vinna í kvöld til að komast áfram.

Real Madrid gerði jafntefli við Valencia, 2-2, í spænsku 1. deildinni um helgina en Carlo Ancelotti, þjálfari liðsins, var engu að síður mjög ánægður með frammistöðu liðsins í þeim leik.

„Okkur líður vel og ef við spilum á miðvikudaginn eins og við gerðum gegn Valencia fer allt vel,“ sagði Ancelotti við blaðamenn í gær.

Real er fjórum stigum á eftir Barcelona á toppi spænsku deildarinnar og þurfa Börsungar aðeins á einum sigri að halda til viðbótar til að verða meistarar.

Meistaradeildin er eini möguleiki Real á stórum titli í ár þar sem liðið er líka úr leik í spænska bikarnum, en þar mætir Barcelona liði Athletic Bilbao í úrslitum.

„Orðspor okkar er undir í leiknum gegn Juventus. Fólkið veit af því og verður okkar tólfti maður,“ segir Daniel Carvajal, bakvörður Real Madrid.

„Við gerðum allt sem við gátum gegn Valencia. Við hlupum og börðumst og það tekur sinn toll. Við ætlum samt að gera það sama gegn Juventus og fá fólkið með okkur,“ segir Carvajal.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×