Íslenski boltinn

Atli: Byrjaði að spá í því að fara á lán fyrir 47 mínútum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Atli Sigurjónsson hefur ekkert spilað með KR í vetur.
Atli Sigurjónsson hefur ekkert spilað með KR í vetur. vísir/stefán
Atli Sigurjónsson, miðjumaður KR, var í fyrsta sinn í leikmannahópi liðsins síðan í lokaumferð Pepsi-deildarinnar í fyrra þegar KR tók á móti FH í fyrstu umferð nýs tímabils í gærkvöldi.

„Ég fór í aðgerð í janúar og átti að vera frá bara í nokkrar vikur. En það misheppnaðist eitthvað þannig ég var bara að byrja að æfa á fullu í bolta í síðustu viku,“ segir Atli í samtali við Vísi.

„Núna er ég byrjaður í bolta og svo hef ég verið að æfa hlaupin á fullu þannig ég er í flottu formi og tilbúinn í slaginn,“ segir Atli.

Samkvæmt heimildum Vísis gerðu Valsmenn KR-ingum tilboð í Atla sem var hafnað. Hann slær ekki hendinni á móti því að komast annað til að spila, en það er ekki efst í huga hans að yfirgefa KR fyrir fullt og allt.

„Það er auðvitað gríðarlega erfitt að koma svona seint inn í KR-liðið þar sem samkeppnin er svo mikil. Ég er byrjaður að skoða það, að fara hugsanlega á lán eitthvert til að koma mér í gang,“ segir Atli.

„Það er þó ekkert búið að gerast í þeim efnum þar sem ég byrjaði að spá í þessu fyrir svona 47 mínútum síðan,“ bætir þessi bráðskemmtilegi miðjumaður við.

„Það er alveg inn í myndinni hjá mér að fara á lán fram á sumar til að fá spiltíma. Ég skoða það eitthvað fram að lokun glugga, en annars er ég alveg rólegur,“ segir Atli Sigurjónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×