Fótbolti

Allt læknalið Bayern München sagði upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hans-Wilhelm Müller-Wohlfahrt hugar hér að leikmanni Bayern München.
Hans-Wilhelm Müller-Wohlfahrt hugar hér að leikmanni Bayern München. Vísir/Getty
Það er komin upp sérstök staða í herbúðum þýska stórliðsins Bayern München eftir að liðið tapaði 3-1 fyrir Porto í fyrri leik liðanna í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar.

Forráðamenn Bayern verða að hefja leit að nýju læknaliði því allir meðlimir læknaliðs félagsins sögðu upp til að mótmæla þeirri gagnrýni sem þeir urði fyrir.

Margir leikmenn Bayern München eru að glíma við meiðsli og forráðamenn félagsins kenndu því frekar um ófarirnar á móti Porto heldur en frammistöðu þeirra leikmanna sem spiluðu leikinn.

Hans-Wilhelm Müller-Wohlfahrt, 72 ára gamall læknir liðsins, er mjög virtur og hefur meðal annars framkvæmt vel heppnaðar aðgerðir á Jürgen Klinsmann og Usain Bolt. Müller-Wohlfahrt er goðsögn í München eftir að hafa starfað fyrir félagið í 38 ár.

„Eftir Meistaradeildarleikinn á milli Bayern München og Porto var látið í það skína að við í læknaliðinu ættum sök á tapinu," sagði Müller-Wohlfahrt í samtali við Bild um ástæður þess að hann sagði upp störfum.

Forráðamenn Bayern München hafa ekkert gefið út í tengslum við þetta mál en margir þýskir fjölmiðlar hafa sagt frá þessu óvenjulega máli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×