Íslenski boltinn

Breiðablik burstaði Valsmenn | Sjáðu mörkin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ellert Hreinsson var frábær í gærkvöldi.
Ellert Hreinsson var frábær í gærkvöldi. vísir/ernir
Breiðablik átti ekki í neinum vandræðum með að valta yfir Val, 5-1, í átta liða úrslitum Lengjubikarsins í fótbolta í Fífunni í gærkvöldi.

Staðan var 1-1 í hálfleik eftir að Arnþór Ari Atlason kom Blikum yfir en Patrick Pedersen jafnaði metin fyrir Val úr vítaspyrnu á 43. mínútu.

Seinni hálfleikurinn var eign Breiðabliks, en í honum skoruðu Höskuldur Gunnlaugsson og Ellert Hreinsson tvö mörk hvor.

Höskuldur skoraði mark tvö og fimm, það fyrra með skalla eftir hornspyrnu og það síðara með föstu skoti úr teignum eftir fallega skyndisókn heimamanna.

Ellert skoraði einnig með föstu skoti úr teignum en annað mark hans og fjórða mark Breiðabliks var virkilega laglegt eins og sjá má.

Breiðablik mætir Víkingi í undanúrslitum á gervigrasvelli Víkinga á sunnudaginn klukkan 16.00 og í hinum undanúrslitaleiknum mætast ÍA og KA á gervigrasvelli KA á Akureyri.

Leikurinn var í beinni útsendingu á Sport TV og má sjá mörkin úr leiknum með því að smella hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×