Um 150 íslenskar stúlkur undir 19 ára eignast börn á hverju ári en allt frá seinna stríði hafa unglingaþunganir verið mun algengari á Íslandi en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Þunganir unglingsstúlkna eru í vestrænum heimi taldar hafa neikvæðar félags- og efnahagslegar afleiðingar, en einhverra hluta vegna hafa þær ekki verið skilgreindar sem félagslegt vandamál hér á landi.
Í næsta þætti Bresta skyggnist Þórhildur Þorkelsdóttir inn í líf unglingsmæðra á Íslandi.
Þar ræðir hún meðal annars við Evu Rún sem er fædd árið 1995. Hún varð ólétt í áttunda bekk og eignaðist barnið í byrjun níunda. Eva varð fyrir miklu einelti eftir að það fréttist að hún ætti von á barni með þáverandi kærasta sínum sem var fimm árum eldri en hún. Þá segir hún grunnskólann sinn hafa þaggað málið niður og var hún send í heimakennslu.
„Samfélagið gerir ekki ráð fyrir því að það séu ungar mæður á Íslandi. Það var ekki viðurkennt að ég væri í níunda bekk ólétt. Það var ekki talað við krakkana og útskýrt mínar aðstæður svo þau gripu bara til sinna ráða og fóru að leggja mig í einelti. Þau eggjuðu húsið mitt, skitu í poka og settu í skápinn minn og plöstuðu bílinn hennar mömmu“.
Sjá má sýnishorn úr þættinum í meðfylgjandi myndskeiði.
Brestir eru á dagskrá Stöðvar 2 á mánudögum kl 20.30.
