Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor í íslenskri málfræði, segir ákvörðun Frosta Sigurjónssonar, formanns efnahagsnefndar Alþingis, um að skila skýrslu sinni á ensku sæta furðu. Skýr lög gildi um stöðu íslenskrar tungu; hún sé mál Alþingis og stjórnvalda og því sé það fyrir neðan virðingu Alþingis að taka við skýrslunni.
Skýringar Frosta eru á þá leið að of dýrt og tímafrekt hafi verið að þýða skýrsluna á íslensku. Eiríkur segir þau rök út í hött.
Orðhengilsháttur og rökleysa
„Menn verða bara að gera sér grein fyrir því að það kostar eitthvað að tala íslensku í landinu. Það er um ár síðan Frosta var falið að skrifa þessa skýrslu og hefði verið lagt upp með það að skrifa skýrsluna á íslensku þá hefði ekki farið neinn auka tími í þetta. Hvað varðar kostnaðinn fékk hann fjórar milljónir til ráðstöfunar en segist bara hafa notað helminginn. Það hefði verið hægt að nota til að þýða skýrsluna,“ segir Eiríkur í samtali við Vísi.
„Það er hans ákvörðun að skrifa skýrsluna á ensku þannig að þetta er bara orðhengilsháttur og engin rök í málinu,“ bætir hann við.
Þá segir Eiríkur að með því að skila inn opinberum gögnum á annarri tungu en móðurmálinu aukist líkur á misskilningi umtalsvert. Skýrsla utanríkisráðherra sé gott dæmi um það. „Manni finnst ekki þurfa að ræða það að opinber gögn sem lögð eru fyrir þingið hljóti að þurfa að vera á íslensku.“
Samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu er íslenska þjóðtunga og opinbert mál á Íslandi. Íslenska er mál Alþingis, dómstóla, stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitarfélaga, skóla á öllum skólastigum og annarra stofnana sem hafa með höndum framkvæmdir og veita almannaþjónustu.
Fyrir neðan virðingu Alþingis að taka við skýrslu á ensku

Tengdar fréttir

Segir þjóðpeningakerfi nothæfan grundvöll endurbóta
Frosti Sigurjónsson skilaði í dag skýrslu sinni til forsætisráðherra um endurbætur á peningakerfinu.