Morðið á rússneska stjórnarandstæðingnum Boris Nemtsov náðist á öryggismyndavélar og hafa rússnesk stjórnvöld nú birt myndbandið.
Á því sést Nemtsov labba á brúnni þar sem hann var skotinn til bana á föstudag. Með honum var kona sem talið er að hafi verið unnusta hans.
Þar sem þau labba eftir brúnni keyrir snjóplógur framhjá þeim, löturhægt, svo morðið sést ekki á myndbandinu. Skömmu síðar sést hins vegar maður hlaupa inn í bíl og er talið að hann sé morðinginn.
Þúsundir mótmælenda eru nú saman komnir í Moskvu til að mótmæla en um leið minnast Nemtsov sem var frjálslyndur stjórnmálamaður og harður gagnrýnandi Vladimír Pútín Rússlandsforseta.