Aðdáendum tónlistarmannsins Ásgeirs Trausta býðst að taka þátt í leik á Facebook-síðu hans þar sem verðlaunin eru að djamma með honum í hljóðprufu á tónleikastaðnum Sheperds Bush Empire í London.
Einnig eru VIP-miðar í boði á tónleika sem hann heldur þar 26. nóvember. Það sem aðdáendurnir þurfa að gera er að senda inn myndband af sér að flytja lag eftir Ásgeir Trausta og vona að frammistaðan sé nógu góð til að þeir komist í gegnum nálaraugað.
Ásgeir Trausti spilar næst á Airwaves-hátíðinni í næstu viku. Að henni lokinni heldur hann áfram tónleikaferð sinni um heiminn, sem stendur að minnsta kosti yfir til 28. febrúar á næsta ári.
