Fótbolti

Skorar Kolbeinn á Nývangi í kvöld?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson hefur verið duglegur að skora í hollensku deildinni í síðustu leikjum.
Kolbeinn Sigþórsson hefur verið duglegur að skora í hollensku deildinni í síðustu leikjum. Vísir/Getty
Kolbeinn Sigþórsson og félagar hans í Ajax fá í kvöld eins erfitt verkefni og þau gerast í boltanum þegar hollenska liðið heimsækir stórlið Barcelona á Nývang í þriðju umferð riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Meistaradeildin fer aftur á stað eftir landsleikjahlé og eftir leiki kvöldsins verður riðlakeppnin hálfnuð hjá liðum í riðlum E, F, G og H.

Ajax hefur gert jafntefli í tveimur fyrstu leikjum sínum (1-1 á móti PSG og 1-1 á móti APOEL) en Börsungar töpuðu á móti Paris Saint-Germain í síðasta leik og eiga því á hættu að missa Ajax upp fyrir sig, vinni hollenska liðið í kvöld.

Kolbeinn hefur verið í byrjunarliðinu í báðum Meistaradeildarleikjum Ajax á leiktíðinni og er búinn að skora fjögur mörk í síðustu þremur deildarleikjum liðsins. Hann er því líklegur kostur í byrjunarliðið hjá Frank de Boer í kvöld.

Kolbeinn hefur enn ekki náð að skora í Meistaradeildinni (9 leikir og 697 mínútur) en besta tækifærið til þess fékk hann á Nývangi í fyrra þegar hann lét Victor Valdes verja frá sér víti í 4-0 sigri Barcelona á Ajax. Kolbeinn nær vonandi að brjóta ísinn í kvöld.

Leikur Barcelona og Ajax verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan 18.45 alveg eins og leikur CSKA Moskva og Man. City klukkan 16.00. Leikur Roma og Bayern München verður sýndur á Stöð 2 Sport 4 klukkan 18.45 en á sama tíma á Stöð 2 Sport 3 verður sýndur leikur Chelsea og Maribor.

Upphitun Meistaradeildarinnar hefst klukkan 18.00 og eftir leiki kvöldsins verða Meistaramörkin klukkan 20.45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×