Erlent

Vara við blóðbaði í Amerli

Andri Ólafsson skrifar
vísir/ap
Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að ástandið í bænum Amerli, sem er tæpum 200 kílómetrum norðan við Bagdad, sé orðið grafalvarlegt.

Vígamenn úr röðum Íslamska ríkisins hafa umkringt bæinn en þar eru um átján þúsund íbúar í herkví.

Heimamenn hafa haldið uppi vörnum í um tvo mánuði en matar- og vatnsskortur er orðinn mikill og alvarlegur. Nikolai Mladenov, fulltrúi Sameinuðu þjóðanna í Írak, segir að grípa þurfi til tafarlausra aðgerða til að koma í veg fyrir að blóðbað verði í bænum.

Íbúar Amerli eru flestir sjía-múslimar og Túrkmenar að uppruna. Vígamenn Íslamska ríkisins álíta þá trúvillinga og hóta þeim grimmilegum örlögum sem ekki gangi af trúnni. Fyrr í mánuðinum voru meira en 500 jasídar drepnir af Íslamska ríkinu. Jasídar voru líkt og Túrkmenarnir í Amerli álitnir réttdræpir af liðsmönnum Íslamska ríkisins en alþjóðlegt átak þurfti til að bjarga tugþúsundum þeirra af Sinjar-fjalli og koma í veg fyrir þjóðarmorð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×