Sport

Vildi fá sjöunda gullið

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hafdís með ein af sex gullverðlaunum sínum í Krikanum í gær.
Hafdís með ein af sex gullverðlaunum sínum í Krikanum í gær. vísir/daníel
Hafdís Sigurðardóttir, UFA, kom sá og sigraði á 88. Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór á Kaplakrikavelli um helgina. Þessi magnaða norðlenska íþróttakona hlaut hvorki fleiri né færri en sex gullverðlaun og ein silfurverðlaun.

Eðlilega var hún í skýjunum yfir árangrinum í Krikanum. „Tilfinningin er rosalega góð. Þetta var rosalega erfið helgi. Erfið, en ánægjuleg,“ sagði hún en Hafdís var þó ekki að niðurlotum komin þrátt fyrir að keppa í sjö greinum.

„Alls ekki. Þetta tekur bara á líkamann. Svo stífnar maður upp við að sitja í bíl norður. Ég gæti samt alveg hlaupið meira ef einhver myndi biðja mig um það, eða ef einhver gull væru í boði,“ segir hún og hlær við.

Árangurinn kom Hafdísi ekkert svakalega á óvart. „Ég var að gæla við þennan fjölda – ég lýg því ekkert. Ég vissi samt alveg að þetta yrði hörð keppni eins og gegn Hrafnhildi Eir í 200 metra hlaupinu. Hún er í bætingarformi, en það er skemmtilegra að hafa einhverja við hliðina á sér.“

vísir/daníel
Hafdís hljóp síðasta sprettinn fyrir UFA í 4x400 metra boðhlaupinu en laut í gras fyrir AnítuHinriksdóttur sem hljóp síðasta sprettinn fyrir ÍR. Var erfitt að sjá á eftir sjöunda gullinu?

„Auðvitað hefði ég viljað fá eitt gull til viðbótar, en Aníta er ansi hörð. Ég vissi að það yrði dálítið langsótt að ég myndi ná henni. En ég reyndi mitt allra besta,“ segir Hafdís.

Frjálsíþróttadrottningin átti nokkra klukkutíma eftir í bíl áður en hún lenti á Akureyri þegar Fréttablaðið heyrði í henni í gær. Það var alveg klárt hvað átti að gera um leið og heim væri komið.

„Ég fæ mér auðvitað Brynjuís. Og ef ég verð ekki mætt fyrir lokun þá læt ég kærastann bara fara og kaupa þannig að ísinn bíði eftir mér heima,“ segir Hafdís Sigurðardóttir, drottningin á Meistaramótinu 2014.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×