Erlent

Blendin viðbrögð við stofnun Kalífadæmis

Brjánn Jónasson skrifar
Stuðningsmenn ISIS í írösku borginni Mósúl fögnuðu yfirlýsingu samtakanna um stofnun kalífadæmis, ef marka má myndir sem samtökin sendu frá sér.
Stuðningsmenn ISIS í írösku borginni Mósúl fögnuðu yfirlýsingu samtakanna um stofnun kalífadæmis, ef marka má myndir sem samtökin sendu frá sér. Fréttablaðið/AP
Samtökin Íslamskt ríki í Írak og Austurlöndum nær, ISIS, lýstu því yfir í gær að þau hafi stofnað kalífadæmi á landi sem tilheyrir Sýrlandi og Írak. Í kjölfarið lýstu samtökin því yfir að þau hafi skipt um nafn, og muni hér eftir heita Islamska ríkið.

Samtökin hafa haft það sem yfirlýsta stefnu sína að stofna kalífadæmi, og hafa nú stigið skrefið til fulls. Í yfirlýsingu samtakanna segir að leiðtogi þeirra, Abu Bakr al-Baghdad, hafi verið útnefndur kalífi, og verði hér eftir kallaður Ibrahim kalífi.

Viðbrögð við þessum yfirlýsingum voru blendin. Stuðningsmenn samtakanna fögnuðu gríðarlega, en stjórnvöld í Írak og Íran fordæmdu hana harðlega.

Sérfræðingar í málefnum svæðisins telja þetta geti haft slæm áhrif á samband ISIS við hópa hófsamari súnníta sem gert haa bandalag við ISIS gegn stjórnvöldum í Írak.

Sjaría-lög verða í gildi í kalífadæminu. Í borginni Raqqa í Sýrlandi, sem hefur verið lengi í höndum ISIS, er tónlist bönnuð, konur þurfa að hylja sig og kristnir þurfa að greiða sérstakan skatt. Þá hafa aftökur verið haldnar á aðal torgi borgarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×