Skoðun

Sæstrengslausnin

Sighvatur Björgvinsson skrifar
Nú eru liðin tuttugu ár frá því fyrst var hugað að lagningu sæstrengs frá Íslandi til Bretlands til sölu á raforku. Þá – eins og nú – sagðist breskur ævintýramaður vera reiðubúinn að afla fjármuna til þess að greiða kostnaðinn við lagningu sæstrengsins auk þess að segjast hafa tilbúinn markað fyrir orkuna. Við skoðun á málinu kom m.a. eftirfarandi í ljós:

1. Þar sem leggja þurfti sæstrenginn bæði um alþjóðlegt hafsvæði sem og um landgrunn í lögsögu annara ríkja voru fjölmörg og flókin úrlausnarefnin bæði í tengslum við lögfræðileg og umhverfisleg álitaefni. Sjálfsagt má leysa þau en þá með ærnum undirbúningi og umtalsverðum kostnaði.

2. Bresk stjórnvöld færðu m.a. fram það álit sitt að bæði þar sem umræddur sæstrengur færi frá landi og kæmi á land skapaðist mikið segulsvið sem myndi m.a. hafa neikvæð áhrif á strandgæsluþarfir Breta. Nauðsynlegt væri að þeirra áliti að leggja tvo sæstrengi nánast hlið við hlið til þess að eyða seguláhrifunum. Þær framfarir hafa sennilega orðið á strandgæslu sjóveldisins, að þess væri líklega ekki lengur þörf. Þó er aldrei að vita.

3. Nú er eftir óvirkjuð álíka mikil orka á Íslandi og þegar er búið að virkja – þó svo hafi ekki verið fyrir 20 árum, þ.e. áður en ráðist var í virkjun á Kárahnjúkum. Öll sú óvirkjaða orka dugar ekki til að fullnægja nema sem svarar orkuþörf Glasgow-borgar. Í Evrópu eru þær margar, Glasgowborgirnar. Hvernig sú firra hefur komist inn í hausinn á Íslendingum að íslensk orka muni nánast leysa öll grænorkuvandamál Evrópu er mér hulin ráðgáta.

4. Verði lagður sæstrengur þyrfti að virkja öll enn óvirkjuð svæði á Íslandi til þess að framkvæmdin skilaði arði. Orkuvandamál Evrópu yrðu engu að síður þau hin sömu eftir sem áður. Þó Íslendingar séu öllum þjóðum meiri og merkari getur íslenska orkan samt ekki bjargað heiminum. Ekkert fremur en hin íslenska afburðaþekking á rekstri banka og fjármálastofnana gat orkað meiru en að setja íslensku þjóðina sjálfa á hausinn og draga velviljaða útlenda lánardrottna með í fallinu.

5. Verði sæstrengslausnin valin yrði innan fárra ára engar virkjanlegar en óvirkjaðar orkulindir eftir á Íslandi. Búið verður þá að ráðstafa því öllu til sölu á erlendum markaði um sæstreng og enginn varaforði eftir til framtíðar. Útlendingar myndu líklega segja að slíkt væri í fullu samræmi við þá áráttu Íslendinga að geta aldrei hugsað í öðru en skammtímalausnum. Aldrei séð neina framtíð fyrir sér. En auðvitað hafa útlendingar alltaf rangt fyrir sér.

6. Hingað til hefur þjóðin haft áhuga á að nýta sér virkjanlega íslenska orku í landinu sjálfu þannig að virðisaukinn af nýtingu hennar verði eftir í landinu. Verði sæstrengslausnin valin er orkan flutt „óunnin“ út og nýting hennar á erlendri grundu myndi þá skapa erlendu vinnuafli tekjur og erlendum stjórnvöldum skatttekjur. Er það auðvitað í fullu samræmi við einlægan áhuga íslensku þjóðarinnar á að Evrópusambandið og þegnar þess hafi sem allra mestan ávinning af nýtingu íslenskra auðlinda. Án efa mun núverandi ríkisstjórn vera uppfull af áhuga á að stuðla að slíkum lausnum, ekki hvað síst þau Sigmundur Davíð, Vigdís Hauksdóttir og Ásmundur Einar.

7. Með beintengingu orkusölunnar við Evrópu myndi hér – eins og í Noregi – hinn íslenski orkusölumarkaður þurfa að laga sig að markaðinum á meginlandi Evrópu. Orkuverðið á Íslandi myndi því verða að hækka til samræmis við það. Formælendur sæstrengjalausnarinnar segjast sjá einfalt ráð við því. Íslenska ríkið eigi þá bara að niðurgreiða orkuna til íslenskra notenda. M.ö.o. íslenskir skattborgarar – sem eru þeir hinir sömu og þurfa að borga til muna hærra orkuverð – eiga þá með hækkandi sköttum að borga sjálfum sér aftur til baka kostnaðinn af sæstrengjalausninni.

Þetta myndum við Ísfirðingarnir nefna Münchausen-lausnina – þ.e. að maður eigi að draga sjálfan sig og reiðskjótann með upp úr keldunni á eigin hári.

Sæstrengjalausninni var vikið út af borðinu fyrir tuttugu árum – með glotti. Vonandi er eitthvað af slíkum húmor enn eftir í landinu. Þrátt fyrir hrunið – eða e.t.v. einmitt vegna þess. Vegna þess er þörfin meiri nú en fyrir tuttugu árum. Þörfin meiri bæði fyrir hugsun – og húmor.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×