Allra veðra von
Síðan tilkynnt var að Super Bowl færi fram á MetLife-leikvanginum í New Jersey lá ljóst fyrir að veðrið myndi mjög sennilega hafa mikil áhrif á leikinn enda allra veðra von á austurströnd Bandaríkjanna.
Veðurspáin er hins vegar þokkaleg fyrir sunnudaginn og nú taldar litlar líkur á ofankomu og að hitastig verði rétt yfir frostmarki.
Það ætti væntanlega að kæta stuðningsmenn Denver enda hefur sú lífseiga mýta fylgt leikstjórnandanum Peyton Manning að hann eigi erfiðara með að kasta í miklum kulda.
Skrímslahamurinn
Marshawn Lynch verður í algjöru lykilhlutverki í leiknum á sunnudagskvöld. Hann er aðalhlaupari Seattle og eitt skæðasta vopn sóknarinnar. Ef Denver tekst að taka hann úr umferð er ekki von á góðu fyrir „sjóhaukana“.
Lynch er athyglisverð persóna. Hann ber viðurnefnið „Beast Mode“ þar sem hann á það til að ryðjast í gegnum hvern varnarmanninn á fætur öðrum án nokkurrar fyrirhafnar.
Hann þolir þó ekki að ræða við fjölmiðla og var fyrir nokkru sektaður af NFL-deildinni fyrir að vanrækja þær skyldur sínar. Hann komst ekki undan viðtölum í aðdraganda leiksins og reyndi ekki að fara í felur með hversu illa fór um hann í sviðsljósinu.
Leynivopnið
Það væri viturlegt að hafa auga með leikmanni númer 11 í liði Seattle. Sá heitir Percy Harvin og er útherji. Hann kom til liðsins frá Minnesota Vikings fyrir tímabilið og var ætlað mjög stórt hlutverk í sókn liðsins í ár. Tíð meiðsli settu hins vegar stórt strik í reikninginn og hefur hann aðeins náð að spila tvo leiki allt tímabilið.
Hæfileikar Harvins eru þó ótvíræðir og er allt útlit fyrir að hann hafi heilsu til að spila annað kvöld. Það yrði gríðarmikill styrkur fyrir sókn Seattle sem er ansi fátækleg samanborin við það vopnabúr sem Denver hefur úr að spila í sínum sóknarleik.
Ekki gleyma okkur
Vörn Seattle hefur dregið að sér mikla athygli fyrir leikinn annað kvöld og skyldi engan undra. Hún er óumdeilanlega sú besta í deildinni og helsta von Seattle til að tryggja sér sinn fyrsta meistaratitil í sögunni.
Varnarmenn Denver eru þó engir aukvisar og sérstaklega þegar kemur að því að stöðva hlaupakerfi andstæðingsins. Það var einmitt það sem liðið gerði mætavel gegn New England Patriots í úrslitaleik Ameríkudeildarinnar.
Auglýsingarnar og Bruno Mars
Það er eitthvað fyrir alla í Super Bowl en leikurinn er hátíð fyrir áhugamenn um sjónvarpsauglýsingar. Það er eins gott að vanda til verksins enda kostar 461 milljón króna að sýna hefðbundna 30 sekúndna auglýsingu í útsendingu Fox-sjónvarpsstöðvarinnar frá leiknum.
Þá er einnig ekkert til sparað fyrir hálfleikssýninguna sem að þessu sinni skartar poppstjörnunni Bruno Mars og hljómsveitinni Red Hot Chili Peppers. Sópransöngkonan Renée Fleming mun flytja bandaríska þjóðsönginn fyrir leik.
