Handbolti

Segir Snorra Stein besta leikstjórnandann í frönsku deildinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Snorri Steinn skorar og skorar.
Snorri Steinn skorar og skorar. mynd/sa-hb.fr
Snorri Steinn Guðjónsson hefur farið á kostum með Sélestat í frönsku 1. deildinni í handbolta á sínu fyrsta tímabili með liðinu.

Þrátt fyrir frammistöðu hans er liðið í fallsæti eftir fjórtán umferðir, en það hefur glímt við mikil meiðslavandræði.

Það vann þó sterkan sigur á Cesson-Rennes, 31-27, í síðustu umferð fyrir HM-fríið og er nú aðeins einu stigi frá öruggu sæti.

Snorri Steinn skoraði fimm mörk í þeim leik, en í heildina er hann búinn að skora 97 mörk í fjórtán leikjum sem gera rétt tæp sjö mörk í leik.

Snorri hefur skorað 67 mörk í 135 skotum sem er skotnýting upp á rétt tæp 50 prósent og þá hefur hann nýtt 31 af 41 vítaköstum sem gerir 75 prósent vítanýtingu. Í heildina er skotnýting hans 55 prósent.

Yérime Sylla, þjálfari Sélestad, er bjartsýnn fyrir seinni hluta leiktíðarinnar þrátt fyrir stöðu liðsins enda er hann að fá menn til baka úr meiðslum og þá hefur hann Snorra Stein.

„Undirbúningurinn verður ekki eins núna og fyrir tímabilið,“ sagði Sylla um HM-fríið á heimasíðu Sélestat.

„Nýju leikmennirnir eru komnir betur inn í þetta og svo er [Snorri Steinn] Guðjónsson besti leikstjórnandinn í deildinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×