Upp­gjörið: ÍR - ÍBV 22-22 | Heimakonur komnar á blað

Stefán Marteinn Ólafsson skrifar
Sunna Jónsdóttir keyrir hér á vörn heimaliðsins.
Sunna Jónsdóttir keyrir hér á vörn heimaliðsins. Vísir/Diego

ÍR og ÍBV áttust við í 3. umferð Olís deild kvenna í kvöld. ÍR sem hafði fyrir leikinn ekki enn náð í sitt fyrsta stig á mótinu voru grátlega nálægt því að leggja ÍBV af velli en urðu að sætta sig við stigið þar sem leiknum lauk með jafntefli 22-22.

Það voru ÍR sem byrjuðu leikinn af krafti og voru mun betri aðilinn fyrstu mínúturnar. Þær komust í fjögurra marka mun 9-5 og voru duglegar að refsa liði ÍBV með hraðaupphlaupum.

Sunna Jónsdóttir sá þetta ekki fyrir.Vísir/Diego

Þegar fyrri hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður tók Sigurður Bragason þjálfari ÍBV leikhlé og fór vel yfir stöðuna með sínu liði. Eftir það byrjuðu hjólin að snúast hjá ÍBV og þær fóru að vinna sig hægt og rólega inn í leikinn.

Þegar það voru tvær mínútur rúmlega eftir af hálfleiknum voru ÍBV stelpurnar búnar að jafna leikinn og náðu að fara með jafna stöðu inn í hálfleikinn 12-12.

ÍBV skoraði fyrstu tvö mörkin í seinni hálfleiknum og komust í 12-14. Það virtist kveikja í ÍR liðinu sem skoruðu næstu þrjú mörk og náðu forustunni í leiknum. Ísabella Schöbel Björnsdóttir átti þá nokkrar stórar vörslur fyrir ÍR og mómentið sveiflaðist með þeim í liði.

Ísabella Schöbel Björnsdóttir varði vel þegar mest á reyndi.Vísir/Diego

ÍR náði þó aldrei að slíta sig almennilega frá ÍBV sem náðu forystunni aftur og virtust vera tryggja sér sigurinn. ÍBV var með tveggja marka forystu þegar rétt rúmar tvær mínútur voru eftir 20-22.

Birna Berg Haraldsdóttir fékk tækifæri til þess að tryggja ÍBV sigurinn með víti þegar rétt um mínúta var eftir af leiknum en Hildur Öder Einarsdóttir varði þá víti frá henni og ÍR náðu að jafna leikinn í 22-22 sem varð lokastaðan.

Lokatölur 22-22.Vísir/Diego

Atvik leiksins

Birna Berg fær vítakast til þess að svo gott sem tryggja ÍBV sigurinn en Hildur Öder Einarsdóttir ver frá henni og ÍR jafnar í næstu sókn.

Stjörnur og skúrkar

Karen Tinna Demian var frábær í liði ÍR og skoraði 11 mörk. Ísabella Schöbel Björnsdóttir átti einnig nokkrar stórar vörslur í seinni hálfleik og þá skoraði Katrín Tinna Jensdóttir mikilvæg mörk undir lokin fyrir ÍR.

Hjá ÍBV var það Marta Wawrzykowska í markinu hjá ÍBV sem var stórkostleg og hélt ÍBV inni í leiknum. Var með 13 varða bolta - 39.4 prósent markvarsla.

Birna Berg var atkvæðamest í liði ÍBV með 11 mörk og óheppin að skora ekki úr vítakasti undir lokin sem hefði getað tryggt ÍBV sigurinn.Vísir/Diego

Dómarinn

Þorleifur Árni Björnsson og Ramunas Mikalonis voru á flautunni hér í kvöld. Yfir afskaplega litlu að kvarta í frammistöðu þeirra. Fannst þeir meira og minna negla allar helstu ákvarðanirnar.Vísir/Diego

Stemmning og umgjörð

Flott umgjörð og vel mætt í stúkuna hjá ÍR í kvöld. Virkilega skemmtilegt að sjá hvað það var vel mætt.Vísir/Diego

„Erum með ungt lið og þurfum að gefa þeim tíma“

Birna Berg í leik kvöldsins.Vísir/Diego

„Þetta er sárt stig fyrir mig persónulega. Ég brenndi af víti þarna í lokin og hefði getað gert út um leikinn en þetta var bara í járnum allan tíman og hefði getað farið hvernig sem er en mér finnst þetta allaveg svekkjandi stig,“ sagði Birna Berg eftir leik.

ÍBV byrjuðu báða hálfleika heldur brösulega en náðu þó að vinna sig vel aftur inn í leikinn.

„Við byrjuðum leikinn náttúrulega hörmulega og erum bara að elta í fimmtán mínútur og hlaupum ekki til baka og getum ekki mætt í leikina svona en við sýnum karakter og komum til baka og síðan fannst mér þetta bara vera kannski við aðeins meira að elta í seinni hálfleik en ég hélt að við myndum vinna þetta allan tímann en vítið fór ekki inn.“

Marta Wawrzykowska stóð fyrir sínu.Vísir/Diego

Marta Wawrzykowska var frábær í marki ÍBV eins og oft áður og bjargaði ÍBV með nokkrum sinnum með frábærum vörslum.

„Því miður er mikið lagt á hana Mörtu og hún þarf að eiga svona leiki ef við ætlum að vinna leiki og hún getur þetta. Hún er búin að sýna það. Hún er búin að eiga núna tvo geggjaða leiki í röð eða þrjá geggjaða leiki. Við eigum henni mikið að þakka.“

ÍBV voru svekktar að hafa ekki náð í öll stigin í kvöld.

„Þetta er algjörlega tapað stig. Við ætluðum okkur að vera með fjögur stig eftir þrjá leiki þannig ég fer svekkt heim. Það er alveg á hreinu.“

ÍBV eru með þrjú stig eftir þrjá leiki í upphafi móts en miklar breytingar hafa orðið á liðinu á síðast liðnu ári.

„Við erum náttúrulega með mjög breytt lið frá því í fyrra. Við erum með ungt lið og þurfum að gefa þeim tíma. Við erum í uppbyggingarfasa og það tekur bara tíma eins og allir vita. Að vera með þrjú stig er betra en tvö en ég hefði viljað vera með fjögur stig eftir þrjá leiki.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira