Handbolti

Haukur komið að ní­tján mörkum í fyrstu tveimur leikjunum í Meistara­deildinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Þrastarson sækir að vörn Wisla Plock.
Haukur Þrastarson sækir að vörn Wisla Plock. getty/Andrzej Iwanczuk

Selfyssingurinn Haukur Þrastarson fer vel af stað með nýja liðinu sínu, Dinamo Búkarest. Hann hefur samtals komið að nítján mörkum í fyrstu tveimur leikjum liðsins í Meistaradeild Evrópu.

Haukur skoraði fjögur mörk þegar Dinamo Búkarest sigraði Viktor Gísla Hallgrímsson og félaga í Wisla Plock á útivelli, 26-28. Auk markanna fjögurra gaf Haukur sex stoðsendingar í leiknum í Plock.

Haukur kannast vel við sig í Póllandi eftir að hafa leikið með Kielce í fjögur ár. Í sumar söðlaði hann um og gekk í raðir Dinamo Búkarest, besta liðs Rúmeníu.

Í fyrsta leik sínum í Meistaradeildinni með nýja liðinu, í 37-28 sigri á strákunum hans Guðmundar Guðmundssonar í Fredericia, skoraði Haukur sex mörk og gaf þrjár stoðsendingar. Hann var valinn í úrvalslið 1. umferð Meistaradeildarinnar.

Í fyrstu tveimur leikjum Dinamo Búkarest hefur Haukur því skorað samtals tíu mörk og gefið níu stoðsendingar.

Auk þess að hafa unnið báða leiki sína í Meistaradeildinni hefur Dinamo Búkarest unnið þrjá fyrstu leiki sína í rúmensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×