Vladimír Pútín, forseti Rússlands hlaut 68 prósent atkvæða almennings í kosningu um mann ársins í Rússlandi. Pútín hefur verið valinn maður ársins fimmtán ár í röð, síðan hann varð forsætisráðherra árið 1999.
Þrátt fyrir að gengi rúblunnar hafi fallið gífurlega, að Rússland hafi einangrast á heimsvísu og að tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla hafi dalað mjög var gífurlega mikið á milli fyrsta og annars sætis. Í öðru sæti var Vladimir Zhirinovsky með fjögur prósent. Sagt er frá þessu á vef Guardian sem hefur það eftir rússnesku fréttaveitunni Interfax.
Rúmlega 1.500 rússar voru fengnir til að velja mann ársins af lista stjórnmálamanna og opinberra aðila. Pútín er gífurlega vinsæll í Rússlandi, en um 88 prósent Rússa sögðust vera ánægðir með störf forsetans í kjölfar innlimunar Krímskaga.
Íbúar Rússlands virðast horfa með hlýjum augum til forsetans. Samkvæmt Mikhail Gorbachev, fyrrverandi leiðtoga Sovíetríkjanna lítur Pútín sjálfur svo á að enginn sé honum æðri, nema guð.
Pútín maður ársins í Rússlandi
Samúel Karl Ólason skrifar
